Fjöldi aðila hefur sent utanríkismálanefnd Alþingis umsögn um tillögu utanríkisráðherra til þingsályktunar um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Samtök iðnaðarins, Bændasamtök Íslands, Fjármálaeftirlitið og Samtök fjárfesta eru meðal þeirra aðila sem sent hafa inn umsagnir.

Þingsályktunartillagan er enn til umfjöllunar í nefndinni og liggur ekki fyrir hvenær hún verður afgreidd þaðan til annarrar umræðu á þingi.

Meginefni tillögunnar er að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.