Samkvæmt vef Vinnumálastofnunar eru tæplega 18 þúsund manns skráðir atvinnulausir hér á landi sem þýðir að gróflega reiknað er atvinnuleysi um 11%.

Með innkomu háskólanemenda á vinnumarkað í sumar er líklegt að fjöldi atvinnulausra hér á landi nái 30 þúsund samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Stór hluti þeirra nemenda sem stunda háskólanám hefur ekki rétt á atvinnuleysisbótum og því ólíklegt að verulega bætist við fjölda þeirra sem skráðir eru atvinnulausir hjá Vinnumálastofnun. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er talið að um 15 þúsund einstaklingar muni koma inn á vinnumarkað yfir hásumarið en talið er að aðeins um þriðjungur þeirra, um 5 þúsund fái vinnu í sumar.

Ef tekið er tillit til þeirra sem koma „nýir“ inn á vinnumarkað í sumar er líklegt að atvinnuleysi hér á landi nái um 17% en þó skal aftur hafa í hug að stór hluti þeirra einstaklinga sem verða atvinnulausir verða, að öllu óbreyttu, ekki skráðir hjá Vinnumálastofnun.