Fjöldi þeirra sem nú eru skráðir atvinnulausir er 17.087 samkvæmt vef vinnumálastofnunar en atvinnuleysi hefur aukist nokkuð hratt síðustu mánuði þó aðeins hafi hægt á fjöldanum síðustu vikur.

Atvinnuleysi mældist 8,2% að meðaltali í febrúar en gróflega má áætla að atvinnuleysi sé nú um 10,7%.

Þó er rétt að hafa í huga að það kann ekki að vera meðaltal yfir marsmánuð þar sem fjöldi atvinnulausra hefur aukist jafn og þétt allan mánuðinn. Gera má ráð fyrir að atvinnuleysi í mars mælist á milli 10,4 – 10,8% að meðaltali samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins.

Atvinnuleysi mælist sem fyrr, þ.e. miðað við síðustu mánuði, mest á höfuðborgarsvæðinu þar sem 11.384 eru skráðir atvinnulausir eða 66,7% allra þeirra sem skráðir eru atvinnulausir. Hlutafallið hefur þó minnkað lítillega en í febrúar voru um tæplega 69% þeirra sem skráðir voru atvinnulausir á höfuðborgarsvæðinu.

Þar á eftir eru 1.813 einstaklingar skráðir atvinnulausir á Suðurnesjum eða 10,6% þeirra sem skráðir eru atvinnulausir.

Þar minnkar atvinnuleysi einnig hlutfallslega miðað við aðra landshluta en mest hefur það hlutfallslega vaxið á norðurlandi eystra þar sem 1.619 einstaklingar eru skráðir atvinnulausir eða 9,5%.

Minnsta atvinnuleysið mælist á Vestfjörðum þar sem 112 eru skráðir atvinnulausir eða 0,7% þeirra sem skráðir eru atvinnulausir á landinu.