*

mánudagur, 24. júní 2019
Innlent 20. febrúar 2018 15:25

Fjöldi bílaleigubíla fimmfaldast

Bílaleigumarkaðurinn óx um fimmtung milli sumarsins 2016 og 2017 og nálgast nú tíunda hluta af heildarbílafjölda landsins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Bílaleigumarkaðurinn hélt áfram að vaxa árið 2017. Fjöldi bílaleigubíla var um 25.000 yfir hásumarið 2017 og var það 20% aukning frá árinu 2016 þegar þeir voru um 20.800 talsins, en á sama tíma jókst ferðamannafjöldi um rúm 24%. Þetta kemur fram nýju tölum frá Ergo fjármögnun, en hér er hægt að sjá myndband frá Íslandsbanka þar sem rætt er við Óðinn Valdimarsson hjá Ergo.

Samtals hefur bílaleiguflotinn fimmfaldað sig að stærð frá árinu 2007 og er nú að nálgast það að nema um 10% af heildar bílaflota landsins. Gert er ráð fyrir um 11% fjölgun ferðamanna á árinu 2018, en óljóst hvort bílaleiguflotinn muni halda áfram að stækka eða standa í stað.

Fjöldi bílaleigufyrirtækja jókst einnig og fyrirtækin stækkuðu. Það voru um 113 rekstraraðilar á markaðnum á síðasta ári miðað við 104 árið áður, en þó með mismikil umsvif. Þannig voru aðeins 42 af þessum 113 sem voru skráðir með 50 bíla eða fleiri í rekstri og er það næstum því tvöföldun frá árinu 2014 þegar það voru aðeins 23 aðilar sem féllu undir þessa stærðarflokkun.

Tíu stærstu eiga þrjá fjórðu hluta bílaleiguflotans

Miðað við fjölda bíla eru það allra stærstu rekstraraðilarnir sem eru ráðandi, en samtals eiga 10 stærstu fyrirtækin um 75% af öllum bílum sem eru í bílaleiguflotanum. Sé það teygt upp í 20 stærstu fyrirtækin þá eiga þau um 88% af bílaleiguflotanum, og því er ljóst að restin eða 12% skiptist á hendur margra minni aðila.

Bílaleiguflotinn hélt áfram að yngjast á síðasta ári og var 68% hlutfall bílanna af 2016 og 2017 árgerð, og 92% flotans 5 ára gamlir bílar eða yngri. Litlar breytingar urðu á samsetningu flotans að öðru leyti, til dæmis með tilliti til tegundaskiptingar og annars, og áfram var skipting milli orkugjafa sú sama og undanfarin ár - eða bensín 54%, dísel 45% og aðrir orkugjafar aðeins 1%.

Stikkorð: Ergo bílar Bílaleigufloti
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is