Í nýrri skýrslu OECD um menntamál kemur fram að útgjöld ríkissjóðs til menntamála á Íslandi hafa aukist samtals um 15 milljarða eða 69% á síðustu 10 árum. Þar kemur einnig fram að á síðastliðnum 10 árum hefur fjöldi þeirra sem ljúka háskólanámi aukist um 12% og sömuleiðis hefur fjöldi þeirra sem ljúka framhaldsskólanámi aukist um 7% innan landa OECD.

Í skýrslunni eru birtir ýmsir mælikvarðar sem tengjast útgjöldum til menntamála. Í nýju vefriti fjármálaráðuneytisins er vakin athygli á því að helst ber þar að nefna að opinber útgjöld til menntastofnana í hlutfalli við landsframleiðslu eru næsthæst á Íslandi meðal landa OECD eða 7,6% en meðaltal OECD er um 5,4%. "Skýringuna á hlutfallslega miklum útgjöldum til menntamála á Íslandi má finna í öðrum mælikvörðum í skýrslunni, t.d. eru skráðir nemendur í skólum á Íslandi hlutfallslega flestir af öllum löndum OECD eða um 31% af heildarmannfjölda," segir í vefritinu.

Þar er einnig bent á að það kemur fram í ýmsum mælikvörðum að útgjöld á hvern nemanda á Íslandi eru yfirleitt yfir meðaltali OECD. Þá er fjöldi nemenda í bekk og á hvern kennara minni á Íslandi en að meðaltali í OECD. Að lokum ber að nefna að í skýrslunni kemur fram að almennt í löndum OECD sé hægt að lækka útgjöld til menntamála um allt að 30% án þess að minnka gæði og umfang kennslu ef áhrifaríkari kennsluaðferðum er beitt. Einnig er bent á að ef allir skólar í löndum OECD nýttu bolmagn sitt til hins ýtrasta þá gætu þeir aukið gæði menntunar um allt að 22% án viðbótarfjármagns.