Starfsmenn sérstaks saksóknara hafa yfirheyrt fjölda manna í Lúxemborg frá síðasta föstudegi vegna rannsóknar embættisins á ætluðum lögbrotum sem áttu sér stað innan Kaupþings. Sjö starfsmenn embættisins hafa dvalið í Lúxemborg í níu daga og hafa haldlagt meira af gögnum en þeir gerðu síðast þegar embættið gerði húsleitir þar í landi. Þá var lagt hald á um 150 kíló af gögnum auk rafrænna gagna. Þeir sem yfirheyrðir hafa verið eru bæði vitni og aðilar sem hafa stöðu sakborninga. Um erlenda ríkisborgara er að ræða en flestir þeirra störfuðu hjá Kaupþingi í Lúxemborg fyrir bankahrun.

Þeir Íslendingar sem liggja undir grun í málunum eru ekki yfirheyrðir á erlendri grundu heldur boðaðir til Íslands í yfirheyrslur.

Í bankanum í viku

Sjö starfsmenn embættis sérstaks saksóknara, þar á meðal Ólafur Þór Hauksson, hafa verið í Lúxemborg frá þriðjudeginum 29. mars. Um morguninn sama dag réðust yfir 70 manns frá embættinu, Serious Fraud Office (SFO) í Bretlandi og lögreglunni í Lúxemborg í húsleitir á fimm stöðum í Lúxemborg í tengslum við rannsóknir á mögulegum lögbrotum sem framin voru innan Kaupþings fyrir fall bankans. Tvær húsleitanna voru á vegum sérstaks saksóknara. Önnur var í fyrirtæki í eigu Skúla Þorvaldssonar en hin í Banque Havilland, sem reistur var á rústum Kaupþings í Lúxemborg. Til viðbótar var leitað á grundvelli réttarbeiðna frá SFO heima hjá Hreiðari Má Sigurðssyni, Magnúsi Guðmundssyni og ráðgjafarfyrirtækinu Consolium, sem er m.a. í eigu Hreiðars Más.

Starfsmenn sérstaks saksóknara og SFO dvöldu í viku í Banque Havilland en aðgerðum í bankanum lauk ekki fyrr en í gærkvöldi. Yfirheyrslur hófust síðastliðinn föstudag og er búist við að þeim ljúki annað kvöld.

Umfang aðgerðanna sem standa nú yfir í Lúxemborg er gríðarlegt. Verið er að afgreiða fimm réttarbeiðnir frá íslenskum yfirvöldum og einhverjar til viðbótar frá SFO. Allt að 15 manns frá SFO hafa tekið þátt í aðgerðunum og er búist við því að þeir snúi heim á sama tíma og Íslendingarnir.