Fjöldi farþega Flugfélags Íslands jókst um 14% á árinu 2007 miðað við árið 2006. Heildarfjöldi farþega í áætlunarflugi var um 430 þúsund þar af voru um 22 þúsund farþegar í millilandaflugi til Færeyja og Grænlands, segir í frétt frá félaginu.

Flogið var til 4 áfangastaða innanlands frá Reykjavík, til Akureyrar, Egilsstaða, Ísafjarðar og til Vestmannaeyja. Til 3 áfangastaða var flogið frá Akureyri, til Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar auk þess sem boðið var uppá flug til Keflavíkur í samstarfi við Icelandair.

Millilandaáfangastaðir félagsins eru á Grænlandi, Kulusuk, Constable Pynt, Narsarsuaq auk Nuuk sem bætt var við síðastliðið sumar, jafnframt var líkt og áður boðið uppá flug til Færeyja.

Mesta aukning farþega var á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar eða um 12%, á leiðinni til Ísafjarðar var aukningin um 9% og til Egilsstaða 5%.

Þetta eru jafnframt stærstu áfangastaðir félagsins, til og frá Akureyri voru fluttir um 200 þúsund farþegar og til og frá Egilsstöðum um 134 þúsund farþegar en til og frá Ísafirði um 47 þúsund.

Aldrei hafa fleiri farþegar flogið með félaginu á einu ári og er þetta því stærsta ár félagsins í 10 ára sögu þess, en félagið fagnaði 10 ára afmæli árið 2007. Í tilefni af afmælinu var boðið uppá afmælisfargjald, krónur 3.990.- til allra áfangastaða innanlands. Til að byrja með voru 20.000 sæti í boði en viðtökurnar voru það góðar að yfir 24.000 farþegar nýttu sér þetta tilboð árið 2007. Í tilefni af þessum góðu viðtökum hefur verið ákveðið að bjóða áfram þetta fargjald árið 2008.

Flugfélag Íslands er í eigu Icelandair Group.