Heildarfjöldi farþega hjá Icelandair í mars var um 123 þúsund og dróst saman um 54% á milli ára. Farþegar Icelandair til Íslands voru um 67 þúsund í mars, samanborið við 121 þúsund í mars í fyrra, og fækkaði því um 44%. Farþegum frá Íslandi fækkaði um 48% og tengifarþegum fækkaði um 68%.

Heildarframboð minnkaði um 44% á milli ára. Sætanýting félagsins var 61.9% samanborið við 81.2% í mars 2019. Komustundvísi var góð í marsmánuði eða 93.0% samanborið við 77.3% í mars 2019.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hyggst félagið nú sækja sér aukið fjármagn, enda hefur útbreiðsla COVID-19 veirunnar og þær ferðatakmarkanir sem settar hafa verið um allan heim, valdið miklum samdrætti í eftirspurn eftir flugi og ferðalögum

Félagið hefur lagt áherslu á að halda fraktflutningum gangandi á sama tíma og ferðalög almennings eru takmörkuð og hafa þeir dregist mun minna saman en farþegaflutningar á þessum tíma. Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir marsmánuð sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag.

Fjöldi farþega hjá Air Iceland Connect var um 11 þúsund í marsmánuði og fækkaði um 51% á milli ára. Framboð minnkaði um 42% og var sætanýting 56.6% samanborið við 68.0% í mars 2019. Seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins drógust saman um 38% í marsmánuði. Fraktflutningar drógust saman en mun minna en farþegaflutningar í marsmánuði.

Á helstu flutningaleiðum hefur allt framboð verið að fullu nýtt og samdrætti í farþegaflugi verið mætt með auka ferðum af fraktvélum félagsins til Evrópu og Bandaríkjanna.

Bogi Nils Bogason , forstjóri Icelandair Group:

„Í flutningatölum félagsins fyrir marsmánuð endurspeglast sú staða sem starfsemi Icelandair Group stendur frammi fyrir á þessum krefjandi tímum. Við höfum lagt áherslu á að tryggja flugsamgöngur til og frá landinu undanfarna daga og vikur, þrátt fyrir að flugáætlun félagsins sé komin undir 10% af þeirri áætlun sem áður hafði verið gefin út. Það er bæði ánægjulegt og mikilvægt að við höfum náð að halda fraktflutningum gangandi en þar hefur áherslan verið á útflutning á fiski til að vernda viðkvæma markaði og innflutning á nauðsynjavörum til landsins.“