Meðal stærstu fyrirtækja Bretlands virðist vera töluverður vilji til að vera áfram í Evrópusambandinu. Rúmlega þriðjungur af 100 stærstu fyrirtækjum landsins hafa lýst því yfir opinberlega að þau vilji að ríkið verði áfram í sambandinu.

Yfirlýsingin birtist í Times of London í gærkvöldi, en meðal forstjóra fyrirtækja sem skrifuðu undir hana voru forstjórar Rio Tinto, HSBC, Royal Dutch Shell og Goldman Sachs International. Þeir sögðu að útganga myndi hindra fjárfestingu og setja vinnumarkaðinn og efnahaginn í hættu.

Yfirlýsing fyrirtækjanna kemur í kjölfarið á því að forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, hvatti fyrirtæki til að lýsa yfir afstöðu sinni. Stuðningur fyrirtækja er talinn vera lykilpartur í baráttu Cameron fyrir þvi að halda landinu innan sambandsins.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um málið verður haldin í Bretlandi þann 23. júní næstkomandi.