Fjöldi hagnaðarviðvarana sem bresk smásölufyrirtæki sendu frá sér á öðrum ársfjórðungi þessa árs næstum tvöföldaðist og hafa þær ekki verið fleiri í fimmtán mánuði. Neikvæðar afkomutilkynningar voru birtar hjá nítján prósentum af þeim smásölufyrirtækjum sem eru skráð í kauphöllina í London, samanborið við tíu prósent félaga í ársfjórðungnum þar áður. Frá þessu greindi endurskoðunarfyrirtækið Grant Thornton í gær.

David Bush, sérfræðingur hjá Grant Thornton, sagði að þessar tölur endurspegluðu það að stýrivaxtahækkun Englandsbanka í maímánuði væri nú þegar farin að hafa áhrif á smásöluverslun þar í landi, auk annarra vaxtahækkana frá síðastliðnu sumri. Fastlega er gert ráð fyrir því að bankinn muni hækka stýrivexti sína í 5,75% í dag og jafnvel hækka þá aftur síðar á árinu.