Upplýsingar Fasteignamats Ríkisins um veltu á fasteignamarkaði sýna að fjöldi þinglýstra samninga á fyrsta ársfjórðungi á höfuðborgarsvæðinu hafði dregist saman um 15% en heildarveltan hafði aukist um 10%, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

Tölur Fasteignamats Ríkisins um veltu á fasteignamarkaði eru byggðar á þinglýstum samningum.

Meðalsamningsupphæð á fyrsta fjórðungi ársins var 29% hærri en á sama tíma í fyrra. Verðvísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði jafnframt um 23% á sama tíma.

Greiningardeild Landsbankans birti spá um þróun fasteignaverðs fyrir um ári síðan. Þar var gert ráð fyrir því að tólf mánaða vöxtur fasteignaverðs yrði nú kominn niður í 14% en til samanburðar mældist hann rúmlega 20% í síðasta mánuði samkvæmt vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu.

Það hefur því ekki dregið jafn skjótt úr hækkunum fasteignaverðs og reiknað var með en greiningardeildin gerir ráð fyrir ráð fyrir að það dragi töluvert úr hækkunum á íbúðarverði á næstunni og það verði komið í jafnvægi um næstu áramót.