Fjöldi innlendra hagtalna verður birtur í vikunni sem kann að varpa frekara ljósi á líklega stýrivaxtaþróun hér á landi í aðdraganda vaxtaákvörðunar bankastjórnar Seðlabanka Íslands 20. desember æst komandi. Á miðvikudag birtir Hagstofan vísitölu neysluverðs fyrir nóvembermánuð.

Í Morgunkorni Glitnis spáir Greining bankans 0,4% hækkun neysluverðs milli mánaða en óvissan er heldur upp á við. Ef spáin gengur eftir hækkar verðbólga úr 5,2% í 5,6% á ársgrundvelli. Tölur um skráð atvinnuleysi í nóvember verða birtar á fimmtudag, en staða vinnumarkaðar hefur verið afar sterk undanfarna mánuði og skráð atvinnuleysi mældist aðeins 0,8% í september og október. Á miðvikudag verða birtar tölur um greiðslukortaveltu í nóvember en sterk fylgni er á milli kreditkortaveltu að viðbættri debetkortaveltu í innlendum verslunum og einkaneyslu, samkvæmt því sem segir í Morgunkorninu.

Hagstofan birtir landsframleiðslutölur fyrir 3. ársfjórðung á fimmtudag. Hagvöxtur á 2. ársfjórðungi var 2,5% frá sama fjórðungi fyrra árs. Greining Glitnis telur líklegt að hagvöxturinn hafi verið á svipuðu róli á 3. fjórðungi ársins. Vöxturinn var að mati Greiningarinnar drifinn af aukinni einkaneyslu og bata á utanríkisviðskiptum, en fjárfesting dróst að öllum líkindum talsvert saman milli ára, sér í lagi fjárfesting atvinnuvega.

Á föstudag birtir Hagstofan svo yfirlit yfir fjármál hins opinbera á 3. fjórðungi og samræmda vísitölu neysluverðs fyrir nóvembermánuð, en íbúðaverð hefur ekki bein áhrif á samræmdu vísitöluna líkt og vísitölu neysluverðs. Í október mældist verðbólga 2,3% á ársgrundvelli m.v. samræmda vísitölu neysluverðs, en var 2,6% að meðaltali á evrópska efnahagssvæðinu á sama tíma, segir í Morgunkorninu.