*

þriðjudagur, 13. apríl 2021
Innlent 26. maí 2017 08:09

Fjöldi krana nálgast toppinn fyrir hrun

Í dag hefur Vinnueftirlitið nálega sama fjölda af byggingarkrönum í skoðun og var fyrir hrun, en enn er of lítið byggt miðað við eftirspurn.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Vinnueftirlitið hefur nú til skoðunar 349 byggingarkrana á landinu sem er nálægt því sem mest var, árið 2007, þegar fjöldinn var 364 kranar. Eftir hrun fækkaði þeim mikið og fóru þeir niður í 113 árið 2010, en hefur vaxið í skrefum síðan og voru 277 kranar til skoðunar hjá eftirlitinu í fyrra að því er Vísir greinir frá.

„Árið 2007 var lánsfjárbóla og offramboð á íbúðarhúsnæði. Staðan er önnur i dag,“ segir Magnús Árni Skulason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economic, sem kynnti nýlega skýrslu sem sýnir fimmtungshækkun raunverðs íbúða á höfuðborgarsæðinu á 12 mánuðum, vegna tregðu í framboði.

„Það er mikil eftirspurn vegna stórra árganga fyrstu kaupenda sem og vegna innflæðis af erlendum ríkisborgurum sem vinna til dæmis við ferðamannaiðnaðinn. Ferðamenn voru 485 þúsund árið 2007, samkvæmt tölum Ferðamálastofu en voru 1.792 þúsund árið 2016. Eftirspurn eftir krönum er því ekki einungis vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis heldur einnig vegna gistirýma og þess háttar.“

Íbúðalánasjóður hefur sagt að byggja þurfi 3.000 íbúðir á ári á næstu þremur árum, en á síðasta ári voru einungis um 1.600 íbúðir byggðar, svo enn þyrfti að tvöfalda byggingarmagn til að anna eftirspurn.