Alls var 780 leigusamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í september sl., sem er tæplega 5% fjölgun samninga á milli mánaða og um 60% aukning á hálfu ári. Leigusamningum á höfuðborgarsvæðinu hefur þó fækkað um 10% á milli ára.

Þá var 1.469 leigusamningum þinglýst á landinu öllu í september sem þýðir fjölgun samninga um tæp 13% á milli mánaða samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands.

Þetta er mesti fjöldi leigusamninga frá því í september í fyrra en leigusamningum fækkaði nokkuð á fyrstu mánuðum ársins líkt og fyrri ár. Fjöldi leigusamninga náði þó hámarki í september í fyrra þegar rúmlega 1.550 samningum var þinglýst.

© vb.is (vb.is)

Á myndinni hér að ofan sést þróun á fjölda leigusamninga á höfuðborgarsvæðinu sl. 2 ár þar sem sést hvernig samningum hefur fjölgað nokkuð yfir sumartímann en snarfækkað aftur þegar líður á veturinn.

Ef horft er á landið í heild þá var sem fyrr segir 1.469 leigusamningum þinglýst á landinu öllu í september sl., samanborið við 1.302 samninga í ágúst. Samningum í september fækkar um 5,4% á milli ára.

Fyrir utan höfuðborgarsvæðið var flestum samningum þinglýst á Norðurlandi eða 278 samningum. Þá var 159 samningum þinglýst á Vesturlandi, 148 samningum á Suðurnesjum og 74 samningum á Suðurlandi.

Sem fyrr var fæstum leigusamningum þinglýst á Vestfjörðum, en 12 samningum var þinglýst þar í september. Þá var 18 samningum þinglýst á Austurlandi.