Tugir kínverskra lögmanna hafa verið yfirheyrðir og minnst 6 verið handteknir undanfarnar vikur, í því sem virðast vera skipulagðar aðgerðir kínverksra stjórnvalda. BBC greinir frá þessu .

Lögmennirnir sem um ræðir hafa flestir tekið þátt í málum sem snúa að tjáningarfrelsi og mannréttindum í einræðisríkinu. Samkvæmt yfirlýsingu frá ráðuneyti almannavarna í Kína er aðgerðunum einnig beint að fólki sem náð hefur vinsældum á samfélagsmiðlum og einstaklingum sem hafa gagnrýnt stjórnvöld. Í yfirlýsingunni kemur fram ásökun um að lögmannastofan Fengrui Law Firm hafi ráðið mótmælendur og haft óeðlileg áhrif á dómsniðurstöður.

Á síðasta ári var ráðist í aðgerðir í Kína til að auka veg réttarríkisins í landinu. Á sama tíma sagði þó Xi Jinping, forseti Kína, að réttarríkið væri hnífur í hendi alþýðunnar og Kommúnistaflokksins. Greiningaraðilar hafa bent á að aðgerðir undanfarinna daga hljóti að vera að undirlagi æðstu embættismanna í Kína.