Nýnemar á háskólastigi og doktorsstigi voru 3.538 haustið 2017 sem er svipaður fjöldi og árið áður. Fjöldi nýnema hefur tæplega tvöfaldast frá árinu 1997 þegar þeir voru 1.979. Flestir voru nýnemar árið 2009, 4.375 talsins, en þá sóttu margir í háskólanám eftir efnahagshrunið. Karlar voru rúmlega 40% nýnema haustið 2017 en hæst fór hlutfall karla meðal nýnema í 43,6% árið 2010. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu .

Rúmur þriðjungur nýútskrifaðra stúdenta fara beint í háskóla

Skólaárið 2015–2016 brautskráðist 3.421 stúdent frá íslenskum framhaldsskólum en nýnemar í háskólum haustið 2016 voru 3.546. Nánari skoðun leiddi í ljós að 35% stúdenta skólaárið 2015–2016 innrituðust í háskólanám haustið 2016. Nýnemar eru nokkru fleiri en útskrifaðir stúdentar, m.a. vegna eldri stúdenta sem hefja háskólanám, vegna nemenda sem eru teknir inn í háskólanám án þess að hafa lokið stúdentsprófi og vegna erlendra nemenda sem stunda nám á Íslandi.

Konur í meirihluta meðal nýnema í doktorsnámi

Nýnemar í doktorsnámi voru 10 talsins haustið 1997 en 168 árið 2017. Bæði körlum og konum í doktorsnámi hefur fjölgað töluvert á þessum árum en frá hausti 2003 hafa konur verið í meirihluta nýnema. Haustið 2017 voru konur 57,7% nýnema á doktorsstigi.

Fjöldi nýnema í fræðilegu háskólanámi hefur haldist nokkuð stöðugur undanfarin þrjú ár, eða um 3.400 nemendur. Nýnemar í starfsmiðuðu háskólanámi voru 199 haustið 2017 en fjöldi þeirra hefur verið sveiflukenndur undanfarin ár. Mestur var fjöldinn árið 1997 (630) en síðan þá hefur margt starfsmiðað háskólanám breyst í fræðilegt háskólanám og nýnemum því fækkað. Til dæmis hefur margt listnám á háskólastigi verið fært úr sérhæfðum listaskólum yfir í Listaháskóla Íslands.

Nýnemum með erlent ríkisfang fjölgar

Fjöldi nýnema á háskólastigi og doktorsstigi sem hafa erlent ríkisfang hefur meira en sexfaldast frá árinu 1997. Þá var 101 nýnemi með erlent ríkisfang en þeir voru 666 haustið 2017. Hæst fór fjöldi erlendra nýnema í 797 árið 2014. Erlendir nýnemar voru tæplega 19% af öllum nýnemum á háskólastigi og doktorsstigi haustið 2017.

Nánast stöðug fjölgun hefur verið meðal erlendra nýnema á doktorsstigi og voru þeir 69 haustið 2017 eða rúm 41% allra nýnema á doktorsstigi.

Færri nýnemar á sviði menntunar

Haustið 2017 hófu langflestir nýnemar nám á sviði félagsvísinda, viðskipta og lögfræði, 1.126, eða tæplega þriðjungur allra nýnema. Næstflestir nýnemar hófu nám á sviði hugvísinda og lista, 520 nemendur. Nýnemum á sviði menntunar hefur fækkað hlutfallslega mest frá árinu 1997 þegar þeir voru tæplega 20% allra nýnema (387), niður í tæplega 9% nýnema haustið 2017 (310). Á sama tíma hefur nýnemum fjölgað hlutfallslega mest á sviði verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerðar, úr 5,4% árið 1997 (107) í 12,5% haustið 2017 (441).