Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ætlar að setja þak á fjölda sendiherra, lögfesta hæfniskröfur og afnema almenna undanþágu frá því að auglýsa þurfi stöðurnar. Jafnframt hefur ráðherrann lýst yfir áhuga á að auka tækifæri fyrir yngra fólk í utanríkisþjónustunni, ekki síst fyrir konur, með auknum sveigjanleika til að taka við tímabundnum stjórnunarstöðum.

Þetta kemur fram í drögum að frumvarpi sem lagt hefur verið fram til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda, en þar kemur til að mynda fram að fjöldi sendiherra miðist við fjölda sendiskrifstofa, en hingað til hafa engin slík viðmið verið til staðar.

Heildarfjöldi sendiskrifstofa er í dag 25 en sendiherrar hafa löngum jafnframt verið fleiri. Þar sem Guðlaugur hefur ekki skipað nýjan sendiherra frá því að hann tók við embættinu 11. janúar síðastliðinn hefur þeim fækkað úr 40 í 36 síðan þá.

Leita þarf aftur til áranna 1961-1964 til að finna jafn langt tímabil þar sem enginn nýr sendiherra hefur verið skipaður að því er segir í tilkynningu um málið frá ráðherranum.

Þar er jafnframt vísað í orð ráðherrans:

„Þessar breytingar tryggja nauðsynlegt jafnvægi milli festu og sveigjanleika innan utanríkisþjónustunnar, þar sem þekking og reynsla af alþjóðamálum myndar kjarnann án þess að við missum af tækifæri til að nýta jafnframt hæfileika og reynslu einstaklinga frá öðrum sviðum þjóðfélagsins,“ segir Guðlaugur Þór.