Ekki ætti að hafa farið framhjá neinum að rússneska kvikmyndin Faust, þar sem íslenski leikarinn Sigurður Skúlason fer með stóra rullu, vann Gullljónið á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum nú fyrir skömmu. Sömuleiðis ætti það ekki að hafa farið framhjá neinum að hluti myndarinnar var tekinn hér á landi. Leikstjórinn Alexander Sokurov var gestur á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík árið 2006 og hreifst hann mjög af landinu. Svo mjög að hann fór um landið í leit að hentugum tökustöðum og sneri svo aftur, eins og áður segir, til þess að taka hluta af stórvirki sínu hér á landi.

Sokurov naut aðstoðar Sagafilm við vinnu sína og segir Kjartan Þór Þórðarson, forstjóri Sagafilm, að fyrirtækið hafi aðstoðað Sokurov við allt sem kom að framleiðslu myndarinnar. „Undirbúningur fyrir tökurnar stóð yfir í 35 daga í maí, júlí og október 2009 en tökudagarnir voru sjö og fóru tökur fram á Reykjanesi, Þingvöllum, á Geysissvæðinu og Fjallsárlóni.“ Að sögn Kjartans komu 35 manns til landsins á vegum framleiðslunnar auk þess sem 35 Íslendingar tóku þátt á einn eða annan hátt í framleiðslunni. Nefnir hann í því samhengi leikara, smiði, ljósamenn, gripara, búningahönnuði, hárskera, förðunarfræðinga, matreiðslumenn, bílstjóra, öryggisgæslumenn, framleiðendur og annað aðstoðarfólk bæði sérhæft og almennt.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.