Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri segir í samtali við Viðskiptablaðið að gjaldeyrisútflæði vegna gjalddaga Íbúðabréfaflokksins HFF14 hafi eitt og sér ekki valdið miklum áhyggjum, þótt áhrifin gætu hafa orðið umtalsverð. Hins vegar hafi töluverður fjöldi aðila leitað til gjaldeyriseftirlits Seðlabankans og spurst fyrir um útgáfu slíkra jafngreiðsluflokka, með útgáfu í huga. Arnór segir að við útgáfu slíkra flokka gæti Seðlabankinn misst tökin á því útflæði sem hefur verið leyfilegt. Þannig myndist ekki réttir hvatar til að taka þátt í þeim leiðum sem hafa verið settar af stað. Þar má nefna fjárfestingarleið Seðlabankans.

Arnór bendir á að skuldabréfaflokkurinn HFF14 er að stærstum hluta í eigu erlendra aðila, og einhverjir þeirra hafi farið „hring eftir hring“ og þannig grætt á gjaldeyrishöftunum.

Alþingi samþykkti í síðustu viku frumvarp sem herðir enn frekar á gjaldeyrishöftunum. Breytingarnar fela meðal annars í sér að aflandskrónueigendur geta ekki farið út með höfuðstólsafborganir af ríkistryggðum skuldabréfum úr landi.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.