Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, og formaður Sjálfstæðisflokksins, einn þriggja flokka í ríkisstjórn sem teygir sig frá vinstri til hægri, segir stjórnarandstöðu vera með ótrúlegar hugmyndir um lausn á því ástandi sem skapast hefur vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins á hagkerfið.

„Við höfum tapað ferðamönnum. Það verður tekjufall hjá fyrirtækjum, fjöldi starfa tapast. öll í einkageiranum,“ bendir Bjarni á í tísti á samfélagsmiðlinum Twitter og segir ríkissjóð núþegar rekinn með miklum halla. „Ótrúlegt að heyra hugmyndir hér í þinginu frá stjórnarandstöðu að lausnin geti falist í því að fjölga opinberum starfsmönnum.“

Bjarni segir þetta vegna ummæla Samfylgingarþingmannsins Ágústs Ólafs Ágústssonar sem svarar með ummælum við innleg Bjarna á sama miðli. Segir Ágúst fjölgun slíkra starfa vera bæði góða pólítík og góða hagfræði.

„Það er opinber starfsmaður sem tekur á móti þér þegar þú fæðist, kennir börnum, er í framlínunni, rannsakar jarðfræði, vaktar snjóflóðahættu, leggur vegi, sígur úr þyrlu til að bjarga sjómanna og kemur þér til hjálpar í nauð,“ segir Ólafur.

Bjarni svarar hins vegar um hæl að verkefnið sé að endurheimta framleiðsluna. „Fjölga að nýju störfum þar sem verðmætasköpun fer fram. Sem er undirstaða skatttekna. Til að standa undir opinberri þjónustu,“ segir Bjarni sem klikkir svo út með því að segja: „Þessi krísa er ekki komin vegna of fárra opinberra starfsmanna.“

Fjölgun opinberra starfa í sumar liður í áætlun ríkisstjórnarinnar

Eins og Viðskiptablaðið sagði ítarlega frá í gær hefur ríkisstjórnin kynnt aðgerðaráætlun 2.0 til að bregðast við efnahagsáhrifum heimsfaraldursins, en meðal þess sem kynnt hefur verið samhliða er að Vinnumálastofnun hyggst ráða 35 manns til starfa tímabundið af atvinnuleysisskrá.

Jafnframt verður farið í sérstakt átak til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, sem eiga takmarkaðan eða engan rétt til atvinnuleysisbóta. Til þess verkefnis verður varið 2.200 milljónum króna, og er markmiðið að skapa um 3.000 tímabundin störf fyrir námsmenn hjá opinberum stofnunum í sumar.

„Þessi sumarstörf munu skipta sköpum fyrir námsmenn og leitast verður við að stuðla að fjölbreytni þeirra. Þetta verða samfélagslega mikilvæg verkefni sem munu gagnast okkur til framtíðar, þannig er ráðgert að störf muni til dæmis bjóðast á sviði rannsókna, skráninga af ýmsu tagi, umönnunar og umhverfisverndar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Jafnframt verður 300 milljónum kr. veitt aukalega í Nýsköpunarsjóð námsmanna en í hann geta háskólanemar í grunn- og meistaranámi sótt um styrki sem og sérfræðingar innan fyrirtækja, stofnana og háskóla sem óska eftir að ráða háskólanema í sumarvinnu við rannsóknir. Styrkirnir miðast við laun í þrjá mánuði og verður áhersla í styrkveitingum á frumkvöðlastarf og nýsköpun.