*

sunnudagur, 23. janúar 2022
Fólk 22. október 2021 09:03

Fjölgar í eigendahópi Lagastoðar

Lögmennirnir Elva Ósk Wiium og Ólafur Kjartansson hafa bæst við í eigendahóp Lagastoðar lögfræðiþjónustu.

Ritstjórn
Elva Ósk og Ólafur.

Lögmennirnir Elva Ósk Wiium og Ólafur Kjartansson hafa bæst við í eigendahóp Lagastoðar lögfræðiþjónustu ehf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofunni. 

Á undanförnum árum hefur Ólafur einkum sinnt verkefnum á sviði verktaka- og útboðsréttar auk þess að annast samningsgerð af margvíslegu tagi. Ólafur lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 2005, hlaut réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómstólunum 2007 og Landsrétti 2018. Ólafur er giftur Hugrúnu Ösp Reynisdóttur, deildarstjóra á þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar, og eiga þau þrjú börn.

Elva Ósk sérhæfir sig í ráðgjöf á sviði skatta- og félagaréttar auk þess sem hún veitir viðskiptavinum sínum ráðgjöf í ágreiningsmálum tengdum fjárskiptum og erfðamálum. Áður en Elva Ósk hóf störf sem lögmaður starfaði hún meðal annars hjá fjármálaráðuneytinu, ríkisskattstjóra og Ernst & Young.

Elva Ósk lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 2000, hlaut réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómstólum 2002 og fyrir Landsrétti 2019. Hún lauk meistaraprófi í skattarétti 2010 og prófi í verðbréfaviðskiptum 2013. Elva Ósk er gift Þórarni Friðrikssyni fasteignasala og eiga þau þrjú börn.

„Það er mikill styrkur fyrir Lagastoð að fá Ólaf og Elvu Ósk í eigendahópinn. Ólafur hefur mikla reynslu á sviði verktaka- og útboðsréttar og þekkir vel til samningagerðar á því sviði. Með Elvu Ósk bætist síðan við þá þekkingu sem lögmenn okkar hafa á sviði skattaréttar en Elva Ósk veitir meðal annars fjárfestum ráðgjöf um hvernig best er fyrir þá að skipuleggja eignasafn sitt með tilliti til skattlagningar. Við munum því halda áfram að veita framúrskarandi ráðgjöf um skattaleg álitaefni til innlendra aðila og fjárfesta sem hingað leita,“ er haft eftir Guðmundi Óla Björgvinssyni, stjórnarformanni Lagastoðar, í tilkynningunni.