Unnur Lilja Hermannsdóttir, Jón Gunnar Ásbjörnsson og Sveinbjörn Claessen hafa bæst við eigendahóp lögmannsstofunnar Landslaga. Þau hafa öll starfað um árabil á stofunni. Tíðindin voru kunngjörn með fréttatilkynningu þessa efnis.

Unnur hóf störf hjá Landslögum árið 2011 sem laganemi. Hún lauk prófi frá Háskólanum í Reykjavík 2012 og fékk málflutningsréttindi í héraði sama ár. Auk lögmannsstarfa sinnir hún starfi formanns skólanefndar Menntaskólans við Hamrahlíð og er varamaður í hæfnisnefnd lögreglu auk þess að sinna stundakennslu í kröfurétti við HR. Sérsvið hennar eru á sviði fjármálaréttar og fyrirtækjaráðgjafar. Unnur er í sambúð með lögmanninum Tómasi Magnúsi Þórhallssyni og eiga þau þriggja mánaða dóttur.

Jón Gunnar lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 2011 og hóf störf hjá stofunni sama ár. Áður hafði hann starfað hjá BBA-Legal um tveggja ára skeið. Hann aflaði sér málflutningsréttinda fyrir héraði árið 2012 og fyrir Hæstarétti sex árum síðar. Hann hefur setið í laganefnd Lögmannafélags Íslans frá 2017. Sérsvið Jóns Gunnars eru hugverka-, félaga- og samningaréttur auk málflutningsstarfa. Nú þegar liggja eftir hann þrjár ritrýndar fræðigreinar í lögfræðitímaritum, tvær á sviði réttarfars og ein á vettvangi höfundaréttar. Sambúðaraðili Jóns Gunnars er Nína Guðríður Sigurðardóttir, sem einnig er lögmaður, og eiga þau þriggja ára dóttur.

Fyrrverandi fyrirliði körfuknattleiksliðs ÍR, Sveinbjörn Claessen, hóf störf á Landslögum fyrir áratug og lauk lagaprófi frá HR og aflaði sér málflutningsréttinda tveimur árum síðar. Hann sinnir meðal annars kennslu við Endurmenntun HÍ í verktaka- og útboðsrétti. Helstu sérsvið hans eru skaðabótaréttur, á því sviði hefur Sveinbjörn ritað eina fræðigrein, kröfuréttur, verktaka- og útboðsréttur auk málflutnings. Sveinbjörn er í sambúð með hjúkrunarfræðingnum Sigríði Huldu Árnadóttur.

„Landslög hafa verið starfrækt frá árinu 1971 og mun stofan því fagna 50 ára starfsafmæli á næsta ári. Á árinu 2010 sameinuðust Landslög og LM Lögmenn undir nafni Landslaga. Hjá Landslögum starfa nú 26 manns. Eigendur Landslaga eru fimmtán en alls starfa þar tuttugu lögfræðingar, þar af átján með lögmannsréttindi. Tólf þeirra hafa réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti og einn fyrir Landsrétti,“ segir í tilkynningu Landslaga og er tekið fram að með viðbótinni í eigendahópinn styrkist hann verulega.