Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur ákveðið að fjölga atvinnuleyfum fyrir leigubifreiðaakstur um 100 á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.

Í tilkynningu frá Innviðaráðuneytinu segir að breytingarnar séu gerðar til að koma til móts við óskir í samfélaginu um meiri þjónustu á leigubifreiðamarkaði. Ráðherra hefur staðfest breytingu á reglugerð um leigubifreiðar (nr. 397/2003), sem tekur gildi á næstu dögum, en úthlutun nýrra atvinnuleyfa er fyrirhuguð á næstu vikum.

Með breytingunni verða atvinnuleyfin á þessu svæði 680 talsins. Um er að ræða mestu fjölgun atvinnuleyfa í einu frá því að lög um leigubifreiðar voru sett árið 2001 (nr. 134/2001).

Sjá einnig: Stefnir í stórfelldan leigubílaskort

Mikið brottfall varð úr stétt leigubílstjóra í faraldrinum. Leyfum hefur auk þess ekki verið fjölgað að neinu ráði í tæp 30 ár, þar til nú.

Í mars á þessu ári lagði Sigurður Ingi fram frumvarp til nýrra heildarlaga um leigubifreiðaakstur. Verði frumvarpið að lögum verða fjöldatakmarkanir afnumdar, en þetta er í þriðja sinn sem hann leggur fram frumvarpið.