„Uppbygging hlutabréfamarkaðarins gekk merkilega vel á árinu þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður. Það sést bæði þegar litið er til virkni markaðarins sem var nær sú sama og á árinu 2021, og í fjölda skráninga á árinu,“ segir Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar.

Fjórar nýjar skráningar voru á síðasta ári, jafn mikið og árið 2021. Ölgerðin og Nova voru skráð á Aðalmarkað, Alvotech var fyrst um sinn skráð á First North og færði sig svo á Aðalmarkað síðar á árinu. Þá var Amaroq Minerals skráð á First North síðla árs 2022.

Í dag eru í heildina 23 fyrirtæki skráð á Aðalmarkað Kauphallarinnar. Þar að auki eru sjö félög skráð á First North vaxtarmarkaðinn. Von er á að félögunum muni fjölga á komandi misserum og hefur fjöldi fyrirtækja boðað koma sínu á hlutabréfamarkaðinn.

Magnús segist hóflega bjartsýnn fyrir komandi tímum og er vongóður um áframhaldandi skráningar á hlutabréfamarkaðinn.

„Ég tel tækifæri til skráninga í þeim greinum sem njóta ákveðins meðbyrs þrátt fyrir að blikur séu á lofti í efnahagslífinu bæði hér og ekki síður erlendis. Þar vil ég nefna ferðaþjónustuna. Greinin er að njóta uppgangs á ný og árið byrjar vel. Ég geri mér vonir um að ferðaþjónustufyrirtæki geti komið inn með góðar tölur í farteskinu og góðar væntingar.“

Hann bætir við að sjávarútvegur og laxeldi gætu komið sterk inn á markaðinn á næstu misserum.

„Við gerum okkur vonir um skráningar í sjávarútvegi og laxeldi, þ.m.t. tvískráningar laxeldisfyrirtækja, á næstu misserum. Ég tel að báðar greinar hafi mikinn ávinning af því að koma inn á markaðinn, bæði af auknu gagnsæi og aðgengi að áhugasömum fjárfestum.“