Farþegar Icelandair í nóvember voru rúmlega 94 þúsund og fjölgaði um 15,3 % frá því í nóvember í fyrra en þá voru þeir 82 þúsund. Í tilkyningu til Kauphallarinnar kemur fram að sætanýting félagsins í mánuðinum var 74,6% og hækkaði um 7,4 prósentustig frá fyrra ári.

Frá áramótum hefur farþegum Icelandair fjölgað um 14,4% og voru 1,436.027 talsins. Sætanýting hefur batnað um 2,9 prósentustig og var 77,9% á fyrstu 11 mánuðum ársins.

Farþegum Flugfélags Íslands í innanlandsflugi fjölgaði um 10,3 % í nóvember og voru tæplega 30 þúsund. Þeim hefur fjölgað frá áramótum um 3,7%

Fluttum tonnum Icelandair Cargo fjölgaði um 3,2% frá fyrra ári og voru 3.470 í mánuðinum. Þeim hefur fjölgað á fyrstu ellefu mánuðum ársins um 0,5%

Fartímum (block-hours) í alþjóðlegu leiguflugi Loftleiða-Icelandic fjölgaði um 81,9% í október og um 29,9% frá áramótum.

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group segir í tilkynningu félagsins: "Þessi árangur Icelandair í nóvember er frammúrskarandi. Bæði er um að ræða mjög mikla fjölgun farþega, en einnig og ekki síður miklu hærri sætanýtingu en í nóvember í fyrra."