Breska lágfargjaldaflugfélagið easyJet, sem FL GROUP á 10,1% hlut í, birti í dag uppgjör fyrir fyrstu sex mánuði rekstrarárs síns sem lauk 31. mars.
Það sem helst stendur uppúr er mikil aukning farþega en þeim hefur fjölgað um 25% miðað við fyrstu sex mánuði síðasta rekstrarárs, og var fjöldi þeirra nú um 13,5 milljónir.

Þá hafa tekjur félagsins aukist um 26% og námu 553 milljónum punda á tímabilinu. Þá hefur sætanýting einnig batnað lítillega og var hún 83,8% nú miðað við 83,3% á sama tímabili í fyrra.

EBITDAR, eða hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og flugvélaleigu, jókst um 11% frá fyrstu sex mánuðum síðasta rekstrarárs og nam nú 37,3 milljónum punda. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var hins vegar tæplega 30% lægri en á sama tímabili í fyrra og skýrist það af auknum leigugreiðslum vegna flugvéla, en flugvélafloti easyJet hefur stækkað mikið frá viðmiðunartímabilinu. Afskriftir hafa aftur á móti dregist saman á milli tímabila. Tap easyJet á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins nam 22,3 milljónum punda sem er rúmlega 13% aukning frá sama tímabili í fyrra þegar tapið nam 19,7 milljónum. Stjórnendur félagsins segja niðurstöðuna vera í takt við áætlanir.

Í Hálffimm fréttum KB banka segir að það sé ánægjulegt fyrir þá sem standa í flugrekstri að sjá að meðalfargjöld hjá easyJet standi nánast í stað, en þau hækkuðu um 0,1% frá sama tímabili í fyrra. Það virðist því að nú sjái fyrir endann á þessari miklu lækkunarhrinu í meðalfargjöldum.

EasyJet hefur bætt við sig flugvélum í kjölfar þess að félagið hefur bætt miklum fjölda leiða við leiðakerfi sitt. Leiðakerfið hefur vaxið um tæp 63% en félagið er nú með 187 flugleiðir í leiðakerfi sínu miðað við 115 á fyrstu sex mánuðum síðasta rekstrarárs. Flugfloti félagsins, bæði vélar sem félagið á og leigir, fór upp fyrir 100 vélar á tímabilinu og var í lok mars 103 vélar. Í lok mars árið 2004 voru vélarnar 83 og nemur aukningin því rúmlega 24%. EasyJet er næst stærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu, næst á eftir írska félaginu Ryanair.
Þegar þetta er skrifað hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 3,93% í viðskiptum dagsins og stendur í 238,25 pensum á hlut.