*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 28. nóvember 2017 10:22

Fjölgun farþega 18% á næsta ári

Samkvæmt spá Isavia verða farþegar sem fara um Keflavíkurflugvöll 10,4 milljónir á næsta ári.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Farþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll mun fjölga um 18% á næsta ári og verða þeir 10,4 milljónir samkvæmt spá Isavia um farþegafjölda að því er kemur fram í frétt mbl.is. Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar kynnti spánna á fundi félagsins í morgun.

Mest fjölgun er talin verða á meðal skiptifarþega sem millilenda eingöngu á flugvellinum á leið sinni á milli Evrópu og Norður-Ameríku eða 33%. Þá er reiknað með að heldur dragi úr fjölgun komu- og brottfararfarþega en hún verður um 10% samkvæmt spánni.

Þá er jafnframt talið að draga muni úr árstíðasveiflunni á næsta ári og fjölgun farþega utan álagstíma verði á bilinu 10-20% samanborið við 4% fjölgun í júní, júlí og ágúst.

Gangi spáin eftir mun farþegafjöldi hafa fjórfaldast á átta árum og ríflega tvöfaldast frá árinu 2015 en Isavia hyggst fara í framkvæmdir fyrir 15 milljarða króna á næstu árum til að mæta áframhaldandi vexti.