Tveimur milljónum fleiri farþegar fóru um Keflavík árið 2016 heldur en árið áður, eða 6.821.358 manns. Er um að ræða 40% aukningu á milli ára, en mest er fjölgunin meðal svokallaðra skiptifarþega og þeirra sem ferðast utan sumartímans.

Skiptist fjöldin í 2.318.293 komufarþega, 2.304.261 brottfarþega og 2.198.804 skiptifarþega.

Gerir Isavia ráð fyrir áframhaldandi fjölgun farþega á þessu ári og þá með svipuðum hætti, það er mest utan álagstíma. Er spáð að heildarfjöldinn verði 8,75 milljónir farþega árið 2017.

Stærsta mannvirki á Íslandi

Í fréttatilkynningu frá Isavia segir að nú styttist í að Flugstöð Leifs Eiríkssonar verði stærsta mannvirki á Íslandi sem opið sé almenningi.

Það muni gerast þegar 7 þúsund fermetra viðbygging við suðurbyggingu flugstöðvarinnar verði tekin í notkun, en sú framkvæmd, auk annarra síðan árið 2015 hafa kostað 15 milljarða króna.

„Notkun íslensku flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli sem tengipunkti á milli fjölda áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku er grundvöllur þessa mikla vaxtar,“ segir í tilkynningunni.

„Skiptifarþegar skila einnig nánast jafnmörgum beinum störfum á flugvellinum og komu- og brottfararfarþegar eða um 0,8 á hverja 1000 farþega.

Því má gera ráð fyrir að beinum störfum á Keflavíkurflugvelli hafi fjölgað um 1.600 á nýliðnu ári og þeim muni fjölga um álíka marga á þessu ári.“