Fjölgun ferðamanna, hælisleitenda og flóttamanna kallar á viðbrögð af hálfu stjórnvalda og löggæslunnar. Þetta er niðurstaða matskýrslu ríkislögreglustjóra vegna Schengen samstarfsins. Í skýrslunni segir jafnframt að áframhaldandi þátttaka í Schengen-samstarfinu kalli á ýmsar úrbætur á sviði öryggismála í samræmi við ákvæði Schengen-samningsins svo sem bætta eftirfylgni með útgefnum dvalarleyfum og farþegalistagreiningu.

Á heimasíðu Innanríkisráðuneytisins segir að ráðherra hafi óskað eftir skýrslunni í kjölfarið af fordæmalausri fjölgun útlendinga og flóttamanna til Evrópu á undanförnum misserum sem hefur skapað verulegan þrýsting á Schengen-samstarfið og aukið eftirlit einstakra ríkja innan Schengen-samstarfsins á innri landamærum á svæðinu.

Viðbúnaðarstig í Evrópu hefur verið hækkað vegna hryðjuverkaógnar og yfirstandandi vinnu á vettvangi Evrópusambandsins með aðkomu samstarfsríkja Schengen, að úrbótum á Schengen samstarfinu.