*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Innlent 6. júní 2018 08:24

Fjölgun ferðamanna minnkar um tugi prósenta

Þó meiri aukning hafi verið í maí en það sem af er ári, þá fór aukningin frá áramótum úr um 45% fyrir ári í tæp 6% nú.

Ritstjórn
Ferðamenn sem koma til landsins eru nú taldir sífellt nákvæmar við brottför á ný.
Haraldur Guðjónsson

Brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll voru um 165 þúsund talsins í maí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 19.200 fleiri en í maí á síðasta ári.

Frá áramótum hafa 793.500 erlendir farþegar farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 5,6% aukning miðað við sama tímabil í fyrra. Aukningin í maí nemur 13,2% milli ára, sem er meiri hlutfallsleg aukning en aðra mánuði ársins.

Sé litið til tímabilsins frá áramótum, eða janúar-maí, dregur úr aukningu í samanburði við fyrri ár. Frá 2014 til 2017 var aukningin á bilinu 27 til 45% á milli ára en er 5,6% nú. Þetta er sama þróun og gætt hefur aðra vetrarmánuði en hlutfallsleg aukning milli ára er þó minni í mars en aðra mánuði vetrarins.

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í maí eða tæpur þriðjungur og fjölgaði þeim um 18,3% milli ára. Sama gildir um næstfjölmennustu þjóðina, Þjóðverja, sem eiga um 7,2% af heildarbrottförum frá landinu, en þeir voru jafnframt 11,1% fleiri í ár en árið 2017. Þriðju fjölmennustu þjóðinni sem heimsækir Ísland, Bretum, fækkaði þó hér á landi um 6,4% á milli ára, og sama gildir um Norðurlandabúa.