Á 12 mánaða tímabili, frá nóvember 2016 til október 2017, voru að jafnaði 17.411 launagreiðendur á Íslandi og hafði þá fjölgað um 642, eða 3,8% frá síðustu 12 mánuðum þar á undan að því er Hagstofan greinir frá . Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali um 186.900 einstaklingum laun sem er aukning um 8.400, eða 4,7%, samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr.

Launþegum fjölgar milli ára í byggingariðnaði og ferðaþjónustu, en ekki eins hratt og áður. Launþegum fækkar í sjávarútvegi. Í október 2017 voru 2.660 launagreiðendur og um 12.900 launþegar í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og hafði launþegum fjölgað um 1.500 eða 14% samanborið við október 2016.

Í október voru 1.783 launagreiðendur og um 26.800 launþegar í einkennandi greinum ferðaþjónustu og hafði launþegum fjölgað um 1.700, eða 7%, á einu ári. Á sama tímabili hefur launþegum í heild fjölgað um 6.500 eða sem nemur 4%.

Hafa verður í huga að í þessum tölum eru ekki upplýsingar um einyrkja sem eru með rekstur á eigin kennitölu og greiða sjálfum sér laun, en slíkt rekstrarform er algengt í byggingariðnaði, landbúnaði, hugverkaiðnaði og skapandi greinum svo dæmi séu tekin.