Í nóvembermánuði voru nýskráningar einkahlutafélaga 222 talsins, en ef horft er til síðustu 12 mánuða hefur nýskráningum fjölgað um 15% frá síðustu 12 mánuðum þar á undan.

Voru alls 2.688 ný einkahlutafélög skráð á tímabilinu, en á fyrra tímabili voru þau 2.328 að því er Hagstofan greinir frá .

Mest hlutfallsleg fjölgun var í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu, þar fjölgaði nýskráningum úr 163 í 274 milli tímabila, sem nemur 68% fjölgun.

Nýskráningum fjölgaði um 36% í flokki flutninga og geymslu en þar fóru skráningarnar úr 45 í 61 milli ára. Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð fjölgaði þeim úr 278 í 355 eða 28%.

Fækkun var hins vegar í nýskráningum í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum, og nam hún 4% frá fyrra tímabili.