Störfum í Bandaríkjunum fjölgaði um 112 þúsund í júní samkvæmt tölum sem birtar voru á föstudag. Þetta er umtalsvert minni fjölgun starfa en spár gerðu ráð fyrir, en samkvæmt könnun á vegum Bloomberg var almennt reiknað með fjölgun um 250 þúsund störf í mánuðinum. Hægt hefur á þeirri miklu fjölgun starfa sem verið hefur í bandaríska hagkerfinu að undanförnu, en til samanburðar fjölgaði um 235 þúsund störf í maí og um 324 þúsund í apríl.

Í Morgunkornum Íslandsbanka kemur fram að atvinnuleysi mældist 5,6% í júní og var óbreytt þriðja mánuðinn í röð. Niðurstaðan er talin styðja þá kenningu að Seðlabanki Bandaríkjanna muni hækka stýrivexti sína ,,hægt og rólega" á næstu mánuðum, þ.e.a.s. að bankinn muni hækka vexti sína um 0,25 prósentustig í hverju skrefi og stýrivextir verði komnir yfir 2% um næstu áramót. Fréttin um fjölgun starfa hafði mikil áhrif á helstu markaði í Bandarikjunum á föstudag. Gengi dollara lækkaði gagnvart helstu myntum í kjölfar tíðindanna og ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa lækkaði töluvert. Helstu hlutabréfavísitölur lækkuðu einnig, S&P 500 lækkaði um 0,3% á föstudag og Nasdaq lækkaði um 0,4%.