Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða (Atvest) hefur bætt við sig tveimur nýjum starfsmönnum á suðursvæði Vestfjarðakjálkans og eru þeir báðir með aðsetur í Skor, þekkingarsetri á Patreksfirði.

Þetta kemur fram á vef Reykhólahrepps. Þar segir að með þessari aukningu í starfsliði Atvest skapist nú forsendur til að vinna mun nánar með einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum á suðursvæði Vestfjarðakjálkans. Sérstök áhersla verður lögð á Reykhólahrepp og samstarf við stjórnsýslu, fólk og fyrirtæki þar.

Um er að ræða Guðrúnu Eggertsdóttur, sem ráðin hefur verið verkefnastjóri hjá Atvest og Magnús Ólafs Hansson sem fram að þessu hefur verið verkefnastjóri hjá Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi.