Íslendingar voru 313 þúsund talsins 1. desember sl. samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands, sem er fjölgun upp á 1,8% frá fyrra ári. Á síðustu fimm árum hefur landsmönnum fjölgað um 25 þúsund manns. Af Evrópulöndum eru það einungis Írland og Kýpur þar sem mannfjölgun hefur verið um það bil jafn mikil og hér á landi. Náttúruleg fjölgun, þ.e. fæddir umfram dána hefur verið álíka hér á landi og á Írlandi, um 0,8% á ári. Hún er næst mest í Frakklandi en þó einungis helmingur af því sem hér er.

Ef litið er til seinustu fimm ára, þ.e. tímabilið 2002 til 2007, kemur í ljós að miklir flutningar hafa verið á milli landssvæða á þeim tíma. Heildarfjölgun landsmanna nam 8,6% á umræddu tímabili. Fjölgun íbúa Austurlands nemur 20% á tímabilinu, og voru stóriðjuframkvæmdir þó ekki hafnar í upphafi þess og íbúum í fjórðungnum hafði fækkað nokkuð undir lok liðins árs í kjölfar þess að framkvæmdir hafa dregist saman. Suðurnesjamönnum hefur hins vegar fjölgað mest allra á þessum tíma, eða um 22%, þrátt fyrir að varnarliðið hafi farið af landi brott og margir misst atvinnu af þeim sökum. Suðurland er í þriðja sæti með um 8% fjölgun og höfuðborgarsvæðið í fjórða sæti með um 7%. Íbúum hefur fækkað á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum