Ýmis konar breytingar á lögum tóku gildi nú um áramótin og geta blaðamenn og lesendur fjölmiðla nú fagnað því að þjála heiti utanríkisráðherra lengist í utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, þó í nafnabreytingunni felist ekki að Guðlaugur Þór Þórðarson sem gegnir embættinu bæti við sig fleiri fjöðrum.

Nýja nafnið nær þó ekki að vera lengra en titill iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra, og vantar þar upp á 4 stafi, né heldur lengra en hið tiltölulega nýlengda heiti félagsmálaráðherra í félags- og barnamálaráðherra. Ástæða breytingarinnar er sögð aukin áhersla og samþætting þróunarsamvinnu sem löngum hefur verið á herðum ráðuneytisins, við aðra starfsemi þess.

Í stjórnartíðindum má jafnframt lesa um fleiri breytingar á ráðuneytunum, en í forsetaúrskurði voru tilkynntar ýmsar breytingar á skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Þar á meðal virðist skráning Íslands á gráan lista yfir ríki með ónógar varnir gegn peningaþvætti valda því að við ábyrgð fyrstnefnda ráðuneytisins bætist: „Framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, þ.m.t. frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna.“

Nafnabreytingar stofnana, tilfærsla milli ráðuneyta og fjölgun málefna

Ýmis önnur ábyrgðarmál bætast við hlutverk ýmissa ráðuneyta, þar á meðal liðir eins og opinberar eftirlitsreglur og skráning raunverulegra eigenda, en þau bætast við undir viðskiptamálefnin sem heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins auk þess sem Einkaleyfisstofa heitir nú Hugverkastofa.

Við sjávarútvegsmálefni þessa sama ráðuneytisins, sem skipt er milli tveggja ráðherra, bætist gjaldtaka vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóður og við neytendamálin bætist kærunefnd vöru- og þjónustu og úrskurðaraðili á sviði neytendamála, en á móti dettur kærunefnd um lausafjár- og þjónustukaup út.

Þar sem Íbúðalánasjóður hættir starfsemi í þeirri mynd sem verið hefur og sameinast Mannvirkjastofnun, fyrir utan umsjón lánasafnsins, í nýrri Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, dettur hann út úr lista yfir málefni Félagsmálaráðuneytisins. Hins vegar kemur Húsnæðissjóður inn í hann í staðinn.

ÍLS sjóðurinn, sem heldur utan um lánasafn Íbúðalánasjóðs færist svo yfir til fjármála- og efnahagsráðuneytið , en tvær stofnanir ráðuneytisins breyta nú um nafn. Annars vegar verður Tollstjóri að Tollgæslu Íslands, en hins vegar verður Ríkisskattstjóri að Skattinum.

Einnig bætist við málefni ráðuneytisins ökutækjatryggingar, milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur, og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem kemur í stað Fjármálaeftirlitsins sem nú er runnið inn í Seðlabanka Íslands líkt og Viðskiptablaðið hefur greint ítarlega frá.

Í málefnum heilbrigðisráðuneytisins kemur orðið þungunarrof í stað hins lýsandi orðs fóstureyðinga, ásamt því að úrskurðarnefnd um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir dettur út, þó ófrjósemisaðgerðir séu enn meðal ábyrgðaratriða ráðuneytisins. Í staðinn fyrir liðinn um nefndina kemur hins vegar ráðgjöf og fræðsla varðandi kynlíf og barneignir.

Meðal ábyrgðarmála mennta- og menningarmálaráðuneytisins bætast Lýðskólar, sem og ábyrgð á vönduðum starfsháttum í vísindum, og nefnd um það, auk rannsóknasjóðir og innviðasjóðir. Loks bætist við samtök um evrópsk rannsóknarinnviði.

Í menningarmálum bætist við ábyrgð á sviðslistaráð og sviðslistasjóður, stuðningur við útgáfu bóka á íslensku og sameiginleg umsýsla höfundarréttar. Við íþróttamál bætist samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, meðan Æskulýðsráð ríkisins hættir að bera ríkistenginguna.

Hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu bætist við ábyrgð á öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, meðan svokölluð Almannaskráning fær nú heitið skráning einstaklinga.

Hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu dettur út ábyrgð á vörnum gegn landbroti, en við bætist ábyrgð á skógum og skógrækt, ásamt því að Landgræðsla ríkisins heitir nú einfaldlega Landgræðslan. Loks bætast Loftslagsmál við ábyrgð ráðuneytisins.

Ríkið gefur og ríkið tekur til baka

Loks, líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um , lækkaði skatturinn um mánaðamótin, en jafnframt lækkar hann næstu áramót líka.

Þannig lækkar nú skattprósentan í grunnþrepi, sem nær upp í ríflega 4 milljónir á ári, eða tæplega 340 þúsund á mánuði, úr 36,94%, í 35,04%. Milliþrepið nýja sem nær upp í 11,4 milljónir á ári eða tæplega 950 þúsund á mánuði fær 37,19%, en mörk hátekjuþrepsins hækkar úr 11,1 milljón á ári eða 930 þúsundum á mánuði og helst í 46,24%.

Svokallað almennt tryggingagjald lækkar úr 5,15% í 4,90%, þó aðrir liðir þess haldist óbreyttir svo samtals lækkar tryggingagjaldið úr 6,60% í 6,35%. Jafnframt eru ýmis konar skattalegar undanþágur, eða skattastyrkir til að hvetja til notkunar á vistvænum samgöngum eins og það er kallað á vef stjórnarráðsins framlengdir.

En einnig koma á móti ýmsar skattahækkanir, eins og nýr skattur á svokallaðar flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, sem notaðar eru í kælikerfum, en hann verður tvöfaldaður eftir ár.

Loks hækka ýmis konar krónutölugjöld eins og bæði almennt vörugjald á bensín sem fer úr 28,05 krónum í 28,75 krónur á lítrinn, sem og svokallað sérstakt vörugjald á bensín sem hækkar úr 45,2 í 46,35 krónur. Einnig hækkaði Olíugjald úr 62,85 krónur í 64,4 krónum.

Ofan á það hækkar einnig svokallað kolefnisgjald sem einnig leggst á eldsneyti, eða úr 10,4 í 11,45 krónur fyri gas- og dísilolíu, bensín úr 9,1 krónu í 10, brennsluolía úr 12,8 krónum í 14,1 og jarðolíugas úr 11,4 krónum í 12,55 krónur. Jafnframt hækka bifreiðagjöld og kílómetragjöld, sem og áfengis og tóbaksgjöld, en lesa má um skattbreytingarnar nánar á vef stjórnarráðsins .