Íslendingum sem yfirgefa landið síðustu dagana fyrir jól fer fjölgandi. Dagana 17. til 22. desember fóru nærri 10.300 Íslendingar úr landi um Keflavíkurflugvöll. Er það um 7% fleiri en á sama tímabili á síðasta ári. RÚV greinir frá.

Mikil umferð er um Keflavíkurflugvöll yfir hátíðarnar. Þannig voru 140 komur og brottfarir á Þorláksmessu. Á aðfangadag voru þær 74 en í dag verða þær aðeins þrjár. Ein vél á vegum Delta kemur frá New York og fer þangað aftur. Þá vara tvær vélar á vegum SAS, önnur frá Kaupmannahöfn og hin frá Osló. Á morgu verða svo 125 komur og brottfarir um völlinn. Milli jóla og nýárs er flugumferðin svipuð, þegar vel á annað hundrað komur og brottfarir eru um völlinn á degi hverjum.