Um eitthundrað gestir voru viðstaddir opnun Kvosarinnar viðskiptaseturs í húsnæði Íslandsbanka við Lækjargötu í morgun en um er að ræða frumkvöðlamiðstöð þar sem um 20 einstaklingar og fyrirtæki hafa aðstöðu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka en um er að ræða samstarfsverkefni Íslandsbanka, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (NMÍ) og Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF).

Þorsteinn Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands bauð gesti velkomna og óskaði öllum samstarfsaðilum til hamingju með daginn. Hann sagði sérlega viðeigandi að opnað væri frumkvöðlasetur í húsnæði sem nú hýsti Íslandsbanka og hafi áður hýst Iðnlánasjóð. Það væri því á góðum grunni að byggja fyrir þá frumkvöðla sem starfa þar í dag.

Össur Skarphéðinsson, iðnaðar- og utanríkisráðherra ávarpaði gesti og þakkaði NMÍ,  Íslandsbanka og SSF fyrir framtakið.  Hann sagði mikilvægt, ekki síst við núverandi efnahagsaðstæður, að hlúa að frumkvöðlastarfsemi í landinu og sagði stjórnvöld hafa gert ýmislegt til þess að búa betur að slíkri starfsemi undanfarið, m.a. með starfrækslu ýmissa sjóða.

Hann sagði undirstöður íslensks atvinnulífs sterkar  þrátt fyrir allt og benti á að ýmsar gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar á borð við sjávarútveg, ferðamál og orkuiðnað stæðu nokkuð sterkt.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka bauð frumkvöðlanna velkomna í húsið og sagði mjög ánægjulegt að sjá svo margar og fjölbreyttar viðskiptahugmyndir og fyrirtæki vera í burðarliðnum.  Hún sagði augljóslega mikinn kraft vera í íslenskum frumkvöðlum og sagðist ánægð með samstarf Íslandsbanka, NMÍ og SFF.

Fulltrúar þriggja frumkvöðlafyrirtækja kynntu fyrirtæki sín og starfsemi en það voru fulltrúar fyrirtækjanna RemakeElectric sem þróar rafmagnsvara, MedicalAlgorithms sem þróar hugbúnað á sviði heilsutækni, Manifesto sem hefur þróað stutt og  hnitmiðuð netnámskeið sem gagnast stjórnendum og sérfræðingum í fyrirtækjum og stofnunum og Risk.is sem hefur þróað áhættureikni fyrir sykursjúka.