Mikilvægt er að gera breytingar á fjölmiðlafrumvarpi Lilju Alfreðsdóttur til að styðja við innkomu og viðgang smærri fjölmiðla á markaðinn með það að marki að tryggja fjölræði, fjölbreytni og virkari samkeppni. Þetta kemur fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins (SKE) við frumvarpið.

Frumvarpið hefur verið talsvert til umræðu undanfarið ár og breytingar verið gerðar á því til að reyna að koma því í gegnum þingið. Hefur það mætt talsverðri andstöðu meðal annars hjá Sjálfstæðisflokknum. Þá hafa héraðsmiðlar og sérhæfðir miðlar haft talsvert út á það að setja enda munu þeir ekkert fá í sinn hlut. Hefur Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdastjóri og stærsti eigandi Fótbolta.net, meðal annars bent á að hans miðill muni ekkert fá meðan samkeppnisaðilar fái styrk frá ríkinu.

Frumvarpið felur í sér að fjölmiðlar munu geta fengið endurgreiddan hluta rekstrarkostnaðar, til að mynda beinan launakostnað ritstjórnar, ár hvert. Hlutfall endurgreiðslu verður að hámarki vera 18% af kostnaði sem til fellur við að afla frétta en þó að hámarki 50 milljónir ár hvert. Er það skilyrði að efni skuli vera fjölbreytt og ætlað almenningi hér á landi. Ef um prentmiðil er að ræða skal hann koma út minnst 48 sinnum á ári en slíkt útilokar meðal annars Bændablaðið frá styrkjum sem og flesta héraðsmiðla.

Í umsögn SKE er vikið að því að ein af forsendum virkrar samkeppni sé að jafnræði ríki milli keppinauta. Þurfi þeir meðal annars að njóta jafnræðis í skilningi laga og í samskiptum við stjórnvöld. Telur eftirlitið að frumvarpið muni skekkja samkeppnisstöðuna hjá fjölmiðlum sem fjalla um sérhæfða eða afmarkaða þætti samfélagsins. Þar séu oft á ferð minni fjölmiðlar. Í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að kostnaður við íþróttir og upptökur eða beinar lýsingar af íþróttaviðburðum fáist ekki endurgreiddur.

„Að mati Samkeppniseftirlitsins er hætta á því að lögin muni leiða til röskunar á samkeppnisstöðu fjölmiðla sem af einhverjum ástæðum uppfylla ekki strangar kröfur [laganna]. Þessi staða leiðir jafnframt til aðgangshindrana að markaðnum þar sem nýir fjölmiðlar sem hefja rekstur þurfa að hafa fjölbreytt efnisframboð strax frá upphafi rekstrar til að njóta endurgreiðslu,“ segir í umsögn SKE. Leggur eftirlitið til að slakað verði á kröfunum í frumvarpinu og að útgáfudögum prentmiðla verði fækkað.

Þá bendir SKE á að í frumvarpinu felist misræmi hvað varðar tungumál. Á einum stað í því er sagt að efnistök fjölmiðla skuli að meginstefnu vera á íslensku en ekki sé loku fyrir það skotið að efni ætlað almenningi hér á landi, með annað móðurmál en íslensku, geti fallið þarna undir. Á öðrum stað stendur hins vegar að skilyrði sé að efni fjölmiðils skuli vera á íslensku.

Breytingin gagnist stærstu miðlunum

Einnig er gerð athugasemd við þetta atriði í umsögn Fjölmiðlanefndar. Í umsögn nefndarinnar er einnig deilt á að í úthlutunarnefndinni, sem tekur ákvörðun um það hverjir fá styrki og hverjir ekki, sé ekki gerð nein krafa um það nefndarmenn hafi einhverja reynslu eða þekkingu af störfum fjölmiðla. Einnig er bent á að ljóst sé að nefndirnar tvær, Fjölmiðlanefndin og úthlutunarnefndin, þurfa að hafa nokkuð samstarf sín á milli en ekkert er kveðið á um hvernig þeim samskiptum skuli háttað, til að mynda með tilliti til meðferðar trúnaðarupplýsinga.

Þá telur Fjölmiðlanefnd að skerpa þurfi á því hvaða reglur skuli gilda þegar hluti starfsemi er styrkhæfur en annar ekki. Á það til að mynda við þegar miðill miðlar efni daglega á vef sínum en prentútgáfa kemur sjaldnar en 48 sinnum út á ári.

„Fjölmiðlanefnd er kunnugt um að forsvarsmenn fjölmiðils sem að meginhluta nýtir gervigreind við miðlun frétta hafi óskað eftir styrk hjá dönsku úthlutunarnefndinni. Fjölmiðlanefnd telur mikilvægt að hugað verði að tækniframförum við gerð frumvarpsins og að tekin sé afstaða til slíkrar tækni,“ segir í umsögninni.

Frá því að frumvarpið var fyrst kynnt almenningi var gert ráð fyrir því að fjölmiðlar gætu fengið fjórðung kostnaðar við fréttaöflun endurgreiddan. Hámarksfjárhæð endurgreiðslu hefur hins vegar ekki breyst.

„Þrátt fyrir lækkun hlutfalls endurgreiðslu munu að öllum líkindum þau einkareknu fjölmiðlafyrirtæki sem eru stærst, Árvakur, Sýn og Torg, eftir sem áður fá hámarksendurgreiðslu, 50 millj. kr. Viðbúið er að breytingin muni bitna mest á smærri fjölmiðlum þar sem rekstrarkostnaður þeirra er ekki nógu hár til að ná upp í hámarksendurgreiðsluna. Lægra hlutfall endurgreiðslu þýðir því einfaldlega að þeir fá lægri fjárhæð endurgreidda þrátt fyrir óbreytta hámarksendurgreiðslu,“ segir Fjölmiðlanefnd. Breytingin mun því hafa talsverð áhrif á smærri miðla en engin á þá stærri.

Umsögn Samkeppniseftirlitsins má lesa með því að smella hér og umsögn Fjölmiðlanefndar má finna hér .