Fjölmiðlanefnd virðist hafa reynst RÚV erfið að mati stjórnarmanna en í fyrra, degi fyrir úrslitakvöld Eurovision komst hún að þeirri niðurstöðu að Lottó-ið teldist viðskiptaboð. Það þýddi að skerða þurfti auglýsingar á úrslitakvöldinu um þrjár mínútur sem hafi verið „mjög óheppilegt og gríðarlega kostnaðarsamt“. Hið sama gildir um sekt sem var lögð á vegna kostunar á þáttunum Golfið en ákvörðun nefndarinnar mun rýra tekjumöguleika RÚV.

„Þá má greina annan tón eftir breytta skipan nefndarinnar. Svo virðist sem nefndin ætli að þrengja skilgreiningar og þar með takmarka markvisst möguleika RÚV til öflunar tekna í gegnum auglýsingar og kostanir,“ segir meðal annars í fundargerð. Tekjur RÚV af samkeppnisrekstri námu 2,2 milljörðum króna í fyrra, drógust saman um 150 milljónir króna milli ára, en á sama tíma námu tekjur af almannaþjónustu, það er útvarpsgjaldið, tæpum 4,7 milljörðum króna og hækkuðu um tæplega 350 milljónir milli ára.

Meðal annars sem ber á góma á stjórnarfundum RÚV má nefna frammistöðu spyrla í kosningasjónvarpi RÚV og samdráttur í auglýsingatekjum en félagið telur að frekari þrengingar þar myndu hafa „áhrif á möguleika félagsins til að sinna þjónustuhlutverki sínu“. Þá hafa menn einnig áhyggjur af kjörum fréttamanna á fréttastofunni sem séu almennt verri en gengur og gerist og rýri möguleika RÚV til mannaráðninga. Þá taldi stjórnarmaður efnistök Landans vera of viðskiptamiðuð, „fyrirtækjanálgun væri of augljós og RÚV ekki til sóma“. Fyrirkomulag kappræðna fyrir sveitarstjórnarkosningar og umfjöllun um þær bar einnig á góma og klofnaði stjórnin í afstöðu sinni til þess máls.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .