Fjölmiðlanefnd gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarpsdrög ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um breytingar á samkeppnislögum. Verði frumvarpið óbreytt séu felldar úr gildi „mikilvægar heimildir sem ætlað er að tryggja fjölbreytni og fjölræði sem og menningarlega og stjórnmálalega fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði“. Þetta kemur fram í umsögn nefndarinnar við frumvarpið.

Frumvarpið felur meðal annars í sér að heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar í rekstur fyrirtækja er felld úr gildi. Það er helst sú grein sem er þyrnir í auga fjölmiðlanefndar.

Í upphafi þessarar aldar voru lögð fram ýmis frumvörp um breytingar á lögum er varða fjölmiðla en þeim var meðal annars ætlað að koma í veg fyrir samþjöppun á eignarhaldi þeirra. Breytingar á fjölmiðlalögum voru samþykktar árið 2013 en við þá breytingu var meðal annars litið til íhlutunarheimildar Samkeppniseftirlitsins. Samkvæmt lögunum getur fjölmiðlanefnd beint erindi til eftirlitsins um að grípa til aðgerða á einstökum fjölmiðlamörkuðum án þess að um brot sé að ræða.

„[Þ]ær heimildir sem Samkeppniseftirlitið hefur nú, eru grunnforsendur þeirrar pólitísku sáttar sem liggja eignarhaldsreglum fjölmiðlalaga til grundvallar og sem ætlað er að gæta að fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði,“ segir í umsögninni. Þá er einnig vikið að því að við samruna á fjölmiðlamarkaði geti fjölmiðlanefnd veitt umsögn um samrunann áður en Samkeppniseftirlitið tekur ákvörðun um hann. „Þannig er tryggt að sú sérþekking sem er til staðar hjá fjölmiðlanefnd um fjölmiðlamarkaðinn hér á landi nýtist Samkeppniseftirlitinu við mat sitt.“

Í umsögninni er einnig vikið að brottfalli þess skilyrðis að Samkeppniseftirlitið þurfi að veita undanþágu frá samkeppnislögum áður en samstarf fyrirtækja hefst. „Fjölmiðlanefnd hefur fengið ábendingar og athugasemdir frá minni fjölmiðlum um að samstarf stórra miðla geti gert þeim erfitt fyrir þar sem m.a. kostnaður og skilyrði fyrir þátttöku geti verið erfið,“ segir í umsögninni.

Frestur til að senda inn athugasemdir við frumvarpsdrögin, sem kynnt eru í Samráðsgátt ríkisstjórnarinnar, rennur út í lok vikunnar.