*

föstudagur, 3. apríl 2020
Fjölmiðlapistlar 9. september 2018 13:25

Fjölmiðlanefnd

Ægivald ríkisins er slíkt, að það verður að þola bæði skoðun og gagnrýni. Jafnvel skefjalausa. Þegar ríkisstofnun sektar litla fjölmiðla fyrir að efast um ágæti kansellísins, þá er voðinn vís.

Andrés Magnússon

Það bar til í fyrri viku að Fjölmiðlanefnd gaf út allnokkrar ákvarðanir og álit. Fjölmiðlanefnd sektaði þá sjónvarpsstöðina Hringbraut um samtals tvær milljónir króna fyrir brot á reglum um auglýsingar í fjórum þáttum, sem sýndir voru í fyrra og í ár. Þá hefði stöðin brotið gegn hlutlægnisskyldu sinni í tveimur þáttum.

Nánar til tekið komst Fjölmiðlanefnd að þeirri niðurstöðu, að í þætti um þorrann í janúar í fyrra, hefði verið fjallað um áfenga vöru Ölgerðarinnar, án þess að nægilega skýrt væri greint á milli ritstjórnarefnis og auglýsinga. Þá hefðu reglur um duldar auglýsingar verið brotnar og sömuleiðis reglur um auglýsingahlutfall. Sama átti við um þátt um fermingar.

Jafnframt hefði Hringbraut brotið gegn lögum um bann við kostun á fréttatengdu efni í þættinum Gjaldeyriseftirlitið, sem sýndur var í október í fyrra, og hvorki gætt að rétti viðmælenda til friðhelgi einkalífs né að hlutlægni og nákvæmni.

Loks hefði stöðin brotið kostunarreglur og ákvæði fjölmiðlalaga um lýðræðislegar grundvallarreglur með því að gæta ekki að hlutlægni og nákvæmni í þættinum Þrotabú Sigurplasts frá því í febrúar síðastliðnum.
Fjölmiðlanefnd komst einnig að því að vefmiðillinn Nútíminn hefði brotið gegn reglum um skýra aðgreiningu ritstjórnarefnis og auglýsinga og um bann við duldum auglýsingum með umfjöllun um Dominos-pizzur og Meistaramánuð Íslandsbanka í febrúar og mars á þessu ári, en lét kyrrt liggja þar sem Nútíminn hefði ekki brotið af sér áður.

                                                                ***

Ef við byrjum á Nútímanum, þá blasir við að Fjölmiðlanefnd telur almenning vera einstaklega skyni skroppinn. Eða hversu hrekklaus þarf maður eiginlega að vera til þess að átta sig ekki á því að mánaðarlöng netklippuröð um pítsugúffandi „áhrifavald“ er ekki fréttaskýring um manneldissjónarmið heldur auglýsing fyrir þá pítsufabrikku, sem nefnd er á 4 sekúndna fresti?

Nú er það auðvitað gott og gilt að skil á milli auglýsinga og ritstjórnarefnis þurfa að vera skýr, en fyrst og síðast lýtur það að trúverðugleika hvers miðils fyrir sig. Það að það þurfi að vera greypt í lög og heil eftirlitsstofnun að brjóta heilann um það allt er fásinna.

                                                                ***

Mál Hringbrautar eru snúnari, en framganga Fjölmiðlanefndar engu skárri fyrir það. Kannski skilin milli kynningar og ritstjórnarefnis hafi ekki verið ýkja skýr í þáttum um fermingar eða þorrann, en gat það í alvöru farið fram hjá nokkrum áhorfanda, að um kynningar var að ræða? Fjöldi kynningarblaða kemur út um fermingar, jól, vinnuvélar og fleira, án þess að nokkrum detti í hug að amast við því. Eða átti sig ekki á því hvers kyns er. Eins fjalla fréttastofur ljósvakamiðla af ótrúlegri tilviljun aðallega um þær íþróttadeildir, sem þær hafa sýningarrétt á, og margs konar menningarkynning er líka mjög neysluskotin. Og hvað?

Þá er athyglisvert að nefndin amast við því að þar hafi verið kynnt áfengi, löglegur neysluvarningur, þegar vægast sagt misdulbúnar auglýsingar á öli birtast óátalið í mun útbreiddari miðlum. Eða heldur nefndin að þar sé bara verið að auglýsa léttöl? Nei, en það er engu líkara en að nefndin hafi kosið sér litla og veikburða miðla til þess að veitast svo löðurmannlega að.

                                                                ***

Hin málin eru þó sjálfsagt alvarlegri, þar sem stöðin er sektuð fyrir að hafa birt þætti um Gjaldeyriseftirlitið og gjaldþrot Sigurplasts, að því er virðist vegna þess að Fjölmiðlanefnd var ekki sátt við efnistökin og hlutast því til um ritstjórn miðilsins með beinum hætti. Það er óþolandi.

Nú má vissulega segja að umræddir þættir hafi haft mjög ákveðið leiðarstef, svo jaðraði við málflutning. En hvað með það? Skýrt kom fram hverjir kostuðu þættina og eins var þeim, sem spjótin beindust helst að, gefinn kostur á að svara spurningum og skýra sína afstöðu. Í þættinum um Sigurplast var velt upp veigamiklum spurningum um hlutverk og skyldur skiptaráðenda, ekki síst upp úr hruni, sem tvímælalaust eiga erindi við almenning. Enn frekar þó í þáttunum um Gjaldeyriseftirlitið, sem hafði gríðarmikil völd en litla ábyrgð og á daginn hefur komið að skákaði í skjóli valdþurrðar og hvatirnar sumar umdeilanlegar. Að vísa til friðhelgi einkalífs viðmælenda, þegar um ræðir embættisfærslu eins æðsta valdamanns þjóðarinnar er hlálegt.

Ægivald ríkisins er slíkt, að það verður að þola bæði skoðun og gagnrýni. Jafnvel skefjalausa. Þegar ríkisstofnun sektar litla fjölmiðla fyrir að efast um ágæti kansellísins, þá er voðinn vís.

                                                                ***

Þá vaknar hins vegar spurningin hvers vegna Fjölmiðlanefnd hefur alveg látið vera að skipta sér af Ríkisútvarpinu (RÚV), útbreiddasta fjölmiðli landsins, sem þó hefur sérstakar skyldur – bæði lagalegar og siðferðislegar –  við almenning og skattborgara. Minna má á það sýndi ekki alls fyrir löngu „heimildarþætti“ um Jóhönnu Sigurðardóttur, sem voru samfelld lofgjörð samfylkingarmanna um leiðtogann, en meira og minna í boði skattgreiðenda.

Eða nýlega heimildarmynd um fiskeldi, Undir yfirborðinu, þar sem allur málflutningur var mjög einhliða, en hvergi kom neitt fram um kostun hennar. Slíkir þættir geta vel átt erindi, en hagsmunatengslin þurfa að liggja fyrir. Sérstaklega auðvitað hjá Ríkisútvarpinu, fjölmiðli í almannaþágu, sem hefur beina lagaskyldu um að „ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast. Sannreyna að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum.“

                                                                ***

Á mánudag voru tveir fréttamenn Reuters, þeir Wa Lone og Kyaw Soe Oo, dæmdir í sjö ára fangelsi í Búrma (Myanmar). Þeir voru dæmdir fyrir að vinna vinnuna sína, að afla frétta og segja þær. Blaðamanna- og mannréttindasamtök, auk ýmissa ríkja, víða um heim hafa mótmælt dómnum harðlega. Má ekki treysta því að ríkisstjórn Íslands sendi böðlunum í Rangún erindi um vanþóknun sína og kröfu um lausn fréttamannanna?

Stikkorð: RÚV Fjölmiðlanefnd Nútíminn Hringbraut kostun fermingar Þorri