Mikill munur er á því hvernig tekið er á „fjórflokknum“ og Bjartri framtíð í fjölmiðlum og öðrum framboðum samkvæmt tölum sem teknar hafa verið saman á vefnum kosningavaktin.is .

Þar er tekið saman hversu oft er fjallað um tiltekna flokka í fjölmiðlum í aðdraganda kosninganna og hve stórt hlutfall umfjöllunarinnar er jákvætt, neikvætt eða hvorki né.

Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn, af þeim sextán flokkum sem til skoðunar eru, þar sem hlutfall neikvæðra frétta er hærra en jákvæðra. Í tilviki hans er 8% fréttanna jákvæð, 10% neikvæð og 81% hvorki né. Hjá Samfylkingu eru 11% fréttanna jákvæð og 7% neikvæð og hjá Vinstri grænum eru 9% frétta jákvæð og 6% neikvæð.

Björt framtíð stendur aðeins betur en þar eru 10% frétta jákvæð og 4% neikvæð, en Framsóknarflokkurinn hefur algera sérstöðu af þessum fimm flokkum. Þar eru ein 19% frétta jákvæð en 7% neikvæð.

Aðeins tveir aðrir flokkar mælast í þeirri stöðu að sagðar hafa verið neikvæðar fréttir af þeim, en 1% frétta af Dögun voru neikvæð og 6% frétta af Hægri grænum. Þessir flokkar geta þó huggað sig við það að hlutfall jákvæðra frétta um þá er þó hærra en hjá Framsókn, en hlutfallið var 26% hjá Dögun og 29% hjá Hægri grænum.

Af öðrum flokkum hafa engar neikvæðar fréttir verið sagðar. Hlutfall jákvæðra frétta af Alþýðufylkingunni var 18%, hjá Flokki heimilanna 26%, hjá Framfaraflokknum 11%, hjá Húmanistaflokknum 9%, hjá Lýðræðisvaktinni 20%, hjá Pírötum 22% og Regnboginn skarar sig svo fram úr öllum öðrum flokkum með 34% hlutfall jákvæðra frétta.

Taka ber þó fram að þegar fjöldi fluttra frétta er skoðaður bera fyrstu flokkarnir fimm af öðrum framboðum.