Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson, eða Simmi og jói, segja fjölmiðlabakteríuna vera sterka en þeir félagar stjórna vikulegum útvarpsþætti á Bylgjunni ásamt því að reka Hamborgarafabrikkuna. „Við höfum leyft okkur að fylgja straumnum hvað varðar fjölmiðlaverkefnin, tökum að okkur verkefni sem við erum spenntir fyrir en sleppum öðrum,“ segir Jóhannes. „Það er ómögulegt að segja til um hvernig því verður háttað í framtíðinni, en fjölmiðlarnir toga alltaf í mann. Það er bara þannig.“

Simmi og Jói eru báðir hluthafar í Stórveldinu en Hugi Halldórsson, sem starfaði um tíma með þeim í sjónvarpi, er stærsti eigandi og stofnandi félagsins. „Við sýndum þessu meiri áhuga og gáfum þessu meiri tíma og svo fór að við komum saman með um fjórðungshlut inn í félagið. Eftir ákveðinn tíma gerðist ég stærri hluthafi og þegar hugmyndunum fór að fjölga fór ég að starfa meira þarna í fullri vinnu. Það er mikil gróska í þessum geira, sjónvarpsstöðvarnar hafa sýnt aukinn áhuga á innlendri dagskrárgerð og við sjáum fram á aukinn vöxt.“

Sigmar segir að Stórveldið stefni að því að framleiða eingöngu íslenskt efni, hvort sem er sjónvarpsþætti eða kvikmyndir. Félagið hefur enn ekki framleitt kvikmynd en þó eru nokkrar flottar pælingar á borðinu, eins og Sigmar orðar það.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.