*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Fjölmiðlapistlar 2. september 2018 13:43

Fjölmiðlarýni: Magga

Fjölmiðlarýni fjallar um ummæli Nicki Minaj um Margréti Thatcher, og umfjöllun fjölmiðla um þau og viðbrögðin við þeim.

Andrés Magnússon
Söngkonan Nicki Minaj lofaði Margréti Thatcher um daginn í útvarpsþætti sínum, Queen Radio Show.
epa

Um daginn birtist frétt á Vísi um þau stórtíðindi að næturgalinn frá Trinidad, Nicki Minaj, hefði lofað Margaret heitna Thatcher í hástert í útvarpsþætti sínum, Queen Radio Show, sem útvarpað er um víða veröld á Beats 1, netútvarpi Apple. Í fréttinni var vitnað til ummæla Minaj um staðfestu Thatcher, sem hefði oft þurft að taka erfiðar ákvarðanir, en þess jafnframt getið að margir aðdáendur hefðu lýst undrun og hneykslan á ummælunum, án þess þó að nein dæmi þess væru nefnd. Afgangurinn af fréttinni fór svo í það að útskýra hvers vegna þessi ummæli væru svo undarleg, nánast eins og Minaj mætti ekki hafa þessa skoðun.

Það er raunar merkilegt, að lesa rökin, því þau voru meira og minna röng. Þar var t.d. sagt að Thatcher hefði verið þekkt undir nafninu „Járnfrúin“ (sumir andstæðingar hennar gerðu það eftir að sovéskir miðlar tóku upp á því), að atvinnuleysi hefði hækkað úr 13,4% yfir í 22,2% á valdatíð hennar (kolrangt, það fór úr um 5,5% í 11,9% þegar hæst var, en var að jafnaði um 7,5%), að hún hefði lagst gegn refsiaðgerðum gegn aðskilnaðarsinnum í Suður-Afríku (hún studdi vopna- og olíusölubann en var á móti allsherjar viðskiptabanni), að hún hefði kallað ANC, hreyfingu Nelson Mandela, hryðjuverkamenn (rétt, en það gerði hún í ummælum um hótanir ANC um sprengjutilræði við bresk fyrirtæki). Aftur á móti var ekkert nefnt um að hún hefði brotið óðaverðbólgu á bak aftur, aukið kaupmátt verulega, bundið enda á langt stöðnunarskeið, náð varanlegum hagvexti og lagt grunninn að breytingu bresks efnahagslífs úr framleiðsluhagkerfi í þjónustuhagkerfi. Sem er líklega það sem Minaj var að vísa til.

Látum það þó liggja milli hluta, það sem var skrýtið við fréttina var tónninn í henni, sem ætti betur heima í skoðanagrein en frétt. Nú var Thatcher mjög umdeildur leiðtogi á sínum tíma og það eimir enn mjög eftir af því í Bretlandi, margir íhaldsmenn hafa hana nánast í dýrðlingatölu en demónisering hennar er snar þáttur í pólitískri sjálfsmynd margra á vinstri kantinum þar í landi. Þessi frétt væri því skiljanleg í Bretlandi, en mun skrýtnari á Íslandi.

Skýringin var auðvitað sú, að þrátt fyrir að Sylvía Hall merkti sér fréttina, þá var þetta þýðing, frá orði til orðs, úr breska blaðinu The Independent, sem hefur frú Thatcher ekki í hávegum. En erindið í íslenskum miðli… það er hæpnara.

***

Nú er það auðvitað vel þekkt hvað íslenskir miðlar eru háðir erlendum miðlum og fréttastofum um erlendar fréttir og slebbaslúður. Hráefnið er nær einvörðungu af ensku málsvæði og óneitanlega bera fréttirnar oft keim af bresku og bandarísku fréttamati. Það þarf ekki að vera fráleitt, Íslendingar eru með hálfan fótinn á engilsaxnesku menningarsvæði og þeir láta sig þær fréttir nokkru varða. En það þarf samt að gæta þess að fjölmiðlar taki ekki lókal fréttamat í einstökum löndum hrátt upp.

***

Fyrst minnst er á frú Thatcher er rétt að benda á viðtal, sem breski fréttamaðurinn Michael Crick tók við Theresu May, núverandi forsætisráðherra Breta, í heimsókn hennar í Suður-Afríku og hefur verið víða dreift á félagsmiðlum. Crick er hörkufréttamaður og þekktur fyrir að láta viðmælendur sína ekki komast upp með neinn moðreyk, heldur ganga hart eftir svörum. Í þessu viðtali þjarmaði hann að frú May og spurði hana ítrekað hvar og hvenær hún hefði mótmælt aðskilnaðarstefnunni á sínum tíma, hvort hún hefði stutt frú Thatcher, sem hefði kallað Nelson Mandela hryðjuverkamann og þar fram eftir götum.

Það er á sinn hátt gaman að þessu viðtali, einmitt vegna þess hvað hann gekk hart fram (og einnig vegna þess hvernig frú May varð vandræðalegri eftir því sem á leið), en á hinn bóginn má spyrja um hversu sanngjarnt það hafi verið. Crick hefur fylgt Verkamannaflokknum að málum frá 15 ára aldri, var sjálfur virkur í stúdentapólitík (þau May voru samtíða í Oxford) og mótmælti minnihlutastjórninni í Suður-Afríku af miklum móð. Að því leyti hefur viðtalið e.t.v. miðast fullmikið við fréttamanninn, en minna við viðmælandann. En það er ævinlega viðvörunarmerki þegar fréttamönnum hitnar í hamsi og það átti vissulega við þarna.

Ekki má þó síður efast um sanngirni spurninganna, því á þessum árum var frú May ekki virk í stjórnmálum (hún byrjaði í sveitarstjórnarpólitík 1986) og það getur tæplega verið forsenda heilinda í stjórnmálum að hafa verið sammála fréttamanninum 40 árum fyrr. Nú eða þetta með að Thatcher hafi kallað Mandela hryðjuverkamann, sem May rak í vörðurnar yfir, sem varla er undarlegt þegar haft er í huga að það gerði frú Thatcher aldrei (þó mýtan um það sé lífseig). Þvert á móti vann hún mikið bak við tjöldin að upprætingu apartheidstjórnarinnar, líkt og kom fram í máli Mandela þegar hann heimsótti hana í Lundúnum stuttu eftir að hann hlaut lausn úr fangelsi og lýsti því yfir að hún væri óvinur apartheid og að land hans stæði í mikilli þakkarskuld við hana.

Viðtal Crick við frú May er vissulega skemmtilegt á sinn hátt og athyglisvert fyrir áhugamenn um fjölmiðlun. Bæði vegna hins ágenga stíls Crick, sem skilar iðulega góðum árangri, en einnig vegna hins, sem ekki er til eftirbreytni. Fréttamenn mega ekki fara offari eða láta stjórnast af eigin skoðunum eða bakgrunni. Þeir þurfa að sýna sanngirni og jafnvægi í spurningum sínum, án þess þó að missa sig í einhverri stimamýkt við valdafólk. Því hlutverk þeirra er að spyrja spurninga og umfram allt að fá fram þau svör, sem máli skipta.

***

Fyrst hér hefur verið dvalið mestmegnis við álitaefni í erlendri fjölmiðlun, er rétt að minnast á andófið við ónotum Donalds Trump Bandaríkjaforseta í garð fjölmiðla og fjölmiðlafólks. Undir það má allt taka.

Í Bretlandi gerðist það hins vegar skömmu síðar að Jeremy Corbyn, hinn aðþrengdi leiðtogi Verkamannaflokksins, lagði orð í belg um fjölmiðla, sem hann telur einnig yfirleitt andsnúna sér. Hann hefur ýmsar ráðagerðir um hvernig hið opinbera verði að reglubinda þá bæði hvað varðar efnistök og fjárhag. Enn örlar þó ekki á samstöðu fjölmiðla gegn þeim áformum.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is