Ákveðið hefur verið hætta prentútgáfu hins gagnmerka bandaríska vikublaðs Weekly World News í næsta mánuði. Blaðið er gefið út af American Media sem jafnframt gefur út blöð eins og National Enquirer. Útgefandi segir að útgáfunni verði hætt vegna aukinnar samkeppni á markaðnum en hann hafði áður tilkynnt að blaðið íhugaði að breyta um stefnu og einbeita sér að fréttum af frægu fólki og útgáfu lífstílstímarita.

Í tæp þrjátíu ár hefur Weekly World News, sem segist vera eina áreiðanlega blað heimsins, þorað meðan aðrir hafa þagað og birt afhjúpandi fréttir af geimverum, draugum og ýmsum uppgötvunum læknavísindanna eins og lækningu við ástarsorg. Eitt frægasta "skúbb" blaðsins var um leðurblökudrenginn svokallaða en hann er að sögn blaðsins afkvæmi leðurblöku og manns og fannst í helli. Blaðið flutti reglulega fréttir af drengnum og sagði til að mynda fyrst blaða frá því að hann hafi aðstoðað Bandaríkjaher við leitina að hryðjuverkaforingjanum Osama bin Laden í Afganistan sökum þess hversu heimavanur hann var hellum.