Rubert Murdoch hefur tekist að tryggja sér meirihlutastuðning frá Bancroft-fjölskyldunni við yfirtökutilboð sitt í bandaríska útgáfufélagið Dow Jones, sem hann lagði upphaflega fram í síðastliðnum maímánuði og hljóðar kaupverðið samtals upp á 5,6 milljarða Bandaríkjadala. Frá þeim tíma hafa staðið yfir miklar og erfiðar samningaviðræður milli News Corprotation fjölmiðlafélagsins, sem er í eigu Murdoch, og Bancroft-fjölskyldunnar, en stór hluti hennar hefur frá upphafi haft miklar efasemdir um að rétt væri að selja Murdoch félagið, sem meðal annars gefur út viðskiptadagblaðið Wall Street Journal. Með yfirtöku Murdoch lýkur hins vegar 105 ára eignarhaldi Bancroft-fjölskyldunnar á Dow Jones útgáfufélaginu.

Í yfirlýsingu sem fjölskyldan, en hún á 24% hlut í fyrirtækinu og fer með 62% atkvæða, sendi frá sér í gær kemur meðal annars fram að fjölskyldumeðlimir sem samtals voru handhafar 37% atkvæða í félaginu, hefðu ákveðið að samþykkja tilboð Murdoch. Það var News Corp. nauðsynlegt að tryggja sér stuðning að minnsta kosti 30% atkvæða Bancroft-fjölskyldunnar til að fjölmiðlarisinn gæti verið fullviss um að yfirtökutilbðið yrði samþykkt af meirihluta hluthafa, en tilboðið sem News Corp. gerði í Dow Jones var 65% yfir markaðsvirði þess á þeim tíma þegar það var lagt fram. Murdoch hafði þegar náð að afla sér stuðnings hlutafjáreigenda sem fóru með 29% atkvæða í félaginu áður en meirihluti fjölskyldunnar ákvað að samþykkja tilboð hans á þriðjudaginn.

Ákveðin vendipunnktur varð þegar Denver-sjóðurinn í eigu Bancroft-fjölskyldunnar sem fer með 9% atkvæða í Dow Jones dró til baka kröfu sína um að Murdoch myndi koma fram með enn hærra tilboð heldur en lagði upphaflega fram. Í staðinn féllst Murdoch á það að aðstoða fjölskylduna við að greiða skuldir upp á milljónir dala sem höfðu hlotist vegna kaupa hennar á lögfræði- og ráðgjafarþjónustu í tengslum tilboð Murdoch í félagið.

Murdoch tókst að sannfæra meirihluta fjölskyldunnar, en einnig aðra hluthafa í Dow Jones, að með því að selja honum Wall Street Journal yrði orðspori og ritstjórnarlegu sjálfstæði blaðsins ekki stofnað í hættu. Sátt náðist að lokum um hvernig ritstjórnarlegt sjálfstæði Wall Street Journal yrði tryggt; komið verður á fót óháðri nefnd sem hefur það hlutverk að hvort tveggja ráða og reka starfsfólk á aðalritstjórn blaðsins og auk þess Dow Jones-fréttaveitunnar.

Andrew Neil, fyrrum ritstjóri breska dagblaðsins Sunday Times, sem er í eigu Murdoch, sagði í samtali við útvarpsstöðina BBC Radio Five í gær að Murdoch reyndi ávallt að velja til starfa ritstjóra sem deildu svipaðri heimssýn og hann hefði. "En þegar upp kemur tiltekið mál sem hann [Murdoch] hefur sterkar skoðanir á eða mál sem varðar mikilvæga viðskiptahagsmuni hans, þá fullvissar hann þig um hvað hann vilji að þú gerir," segir Neil.

Það er ekki búist við því að samkeppnisyfirvöld muni standa í vegi fyrir yfirtöku News Corp. á Dow Jones. Gengi bréfa í Dow Jones hækkuðu um 10% í viðskiptum á þriðjudaginn og hélt hækkunin áfram í gær, en um hádegi stóð gengið í 58,18 dölum á hlut.