Hægt hefur á bata fyrir­tækja að mati stjórnenda 120 stærstu fyrir­tækja landsins. Of mörg fyrirtæki hafa komið of skuldsett út úr endur­skipulagningu hjá bönkunum og þyrftu mörg þeirra á frekari úrræðum að halda. Þetta kemur fram í skýrslu Samkeppniseftirlitsins, þar sem skoðuð var staða 120 stærstu fyrirtækjanna á samkeppnismarkaði.

Þessi skýrsla er áhyggjuefni, það er ekki hægt að segja annað," segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Viðskiptablaðið.

Rúmlega þriðjungur fyrirtækjanna 120 er með arðsemi undir stýrivöxtum Seðlabanka Íslands og er tónninn í atvinnulífinu sagður mun neikvæðari nú en fyrir ári síðan og er það talin vísbending um stöðnun.Samkvæmt skýrslunni, sem kynnt var á ráðstefnu Samkeppniseftirlitsins á föstudaginn, eru það einkum fyrirtæki í innlenda þjónustugeiranum sem standa illa þrátt fyrir að hafa farið í gegnum endurskipulagningu. Með innlenda þjónustugeiranum er átt við öll þau fyrirtæki sem afla tekna sinna eingöngu á innlendum markaði. Í skýrslunni segir að innlend þjónusta sé stærsti geiri hagkerfisins.