Fjármálaeftirlitið hefur sent 18 mál til embættis sérstaks saksóknara og að sögn Gunnars Andersen, forstjóra eftirlitsins, eru fjölmörg mál á leiðinni þangað. Um miðjan maí var greint frá því að 10 mál er varðar bankahrunið hefðu verið send til sérstaks saksóknara og fimm væru á leiðinni.Þau hafa nú verið send áfram auk þriggja mála til viðbótar.

Að sögn Gunnars eru mörg mál í rannsókn hjá FME og sagðist hann eiga von á því að haldið verði áfram að rannsaka mál er tengjast bankahruninu út þetta ár og jafnvel allt næsta ár þar sem mikill fjöldi mála bíður skoðunar hjá eftirlitinu. Hann sagðist ekki geta sagt til um það hve mörg mál bíði rannsóknar þar sem hvert og eitt mál hefur marga fleti. Hann sagði að umfangið gæfi tilefni til að ætla að þau gætu orðið margfallt fleiri en öll mál er varða bankahrunið fara til sérstaks saksóknara.

Að sögn Gunnars tekur talsverðan tíma að vinna þessi mál enda flókin. Þannig fóru engin mál er varðar hrunið til saksóknara fyrstu mánuðina en síðan hefur þeim fjölgað jafnt og þétt. Öll mál er fara frá FME til sérstaks saksóknara tengjast bankahruninu.

__________________________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á vefnum. Hægt að óska eftir lykilorði og áskrift á vefnum.