Forsvarsmenn Arion banka hafa lýst því yfir að bankinn sé að horfa á norðurslóðafjármögnun, m.a. til að auka landfræðilega fjölbreytni. Þetta kom fram á markaðsdögum bankans fyrir skömmu. Í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar er Benedikt Gíslason bankastjóri meðal annars spurður hvaða samkeppnisforskot bankinn hafi í þessum efnum umfram erlenda banka.

„Ég held að réttara væri að spyrja hvaða samkeppnisforskot hefur Ísland,“ segir hann. „Við eigum margt sameiginlegt með öðrum þjóðum á norðurslóðum. Íslands er strjálbýlt, við búum við svipað veðurfar, byggjum á fiskveiðum og eigum næga orku. Þrátt fyrir að vera lítil þjóð þá erum við ólík hinum að því leyti að við erum með mjög þróað fjármálakerfi og góðar tengingar við erlenda fjármálamarkaði enda fjármagna bankarnir sig á alþjóðlegum mörkuðum. Við erum líka í auknum mæli farin að sjá erlenda fjárfesta koma hingað án þess að það sé gert vegna einhverra ríkisstyrkja eða vegna þess að eitthvað sé að verðlagningu á krónunni eða fyrirtækjum. Þeir koma hingað á sömu forsendum og þeir gera annars staðar í Norður-Evrópu.

Það er vegna þessa sem ég tel að Ísland sé í kjörstöðu til að veita fjármálaþjónustu til uppbyggingar á norðurslóðum. Samkeppnisstaðan er góð gagnvart okkar nágrannalöndum Færeyjum og Grænlandi en líka austurströnd Kanada og jafnvel Alaska. Þetta eru að mínu viti svæði þar sem íslensk fjármálaþjónusta á raunhæfa möguleika á að gera sig gildandi.
Það er æði margt að gerast á Grænlandi í tengslum við námuvinnslu, uppbyggingu innviða og ferðaþjónustu. Ísland hefur mjög mikið fram að færa á Grænlandi enda hafa íslensk verktakafyrirtæki unnið þarna um árabil, íslensk fyrirtæki annast flutninga, og á ég þá bæði við flugfélög og skipafélög, og svo eru íslensk ferðaþjónustufyrirtæki farin að starfrækja þjónustu á Grænlandi. Færeyjar eru efnahagssvæði þar sem landsframleiðsla á hvern íbúa er orðin hærri en í Danmörku og þar er sterk atvinnustarfsemi, sérstaklega í tengslum við fiskeldi.

Arion banki vill taka þátt í þessari uppbyggingu allri enda eru 75% af okkar erlendu lánabók á þessu norðurslóðasvæði. Þannig er um að ræða atvinnugreinar, landsvæði og aðstæður sem við þekkjum. Það sem er nýtt er að við erum fyrst nú að gefa okkur út fyrir þetta því við sjáum fjölmörg tækifæri til vaxtar. Ef hægt er að kalla norðurslóðir efnahagssvæði þá hefur það heilmikið fram að færa næstu áratugi.“

Nánar er fjallað um málið í ítarlegu viðtali við Benedikt Gíslason í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .